3.11.2007 | 00:00
GÓÐ GREIN DOFRA.
Grein Dofra Hermanssonar í Morgunblaðinu í dag um Ölkelduháls er afar kærkomin því hún varpar skýru ljósi á svonefnda Bitruvirkjun. Samkvæmt greininni höfðu nefndarmenn í rammaáætlunarnefndinni ekki tíma til að skoða myndir af svæðinu eða kynna sér það að gagni. Þó voru til kvikmyndir af því sem ég notaði í innslag í Dagsljósi um það. Þetta er enn ein áminningin um það hvaða afleiðingar það hefur að spara svo við sig í vinnu og fjármagni við að skoða íslenska náttúru að teknar eru ákvarðanir byggðar á röngum forsendum.
En það liggur svo óskaplega mikið á að reisa hvert risaálverið af öðru að hvorki er tími né vilji fyrir því að láta svo lítið að kynna sér það sem fórna á fyrir stóriðjuguðinn.
Mér skilst að Dofri hafi átt stóran þátt í "Fagra Íslandi" og eiga hann og skoðanasystkin hans í Samfylkingunni skilið að því sé haldið á lofti og þakkað fyrir það.
Í samstarfi við stóra stóriðjuflokkinn mun ekki veita af baklandi fyrir Þórunni Sveinbjarnardóttur í því andófi sem hún lýsti yfir á Umhverfisþingi að hún myndi stunda í ríkisstjórninni eins og tíðkast hjá umhverfisráðherrum í öðrum löndum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)