BRÁÐUM JÚLÍSVEINAR?

Getur það verið rétt sem mér heyrðist í dag að í lok auglýsingar einhverrar verslunarinnar var sagt: "Jólasveinar á staðnum"? Eru engin takmörk fyrir því hvað verslunareigendur telji sig þurfa að gera til þess að vera á undan keppinautunum í jólaversluninni? Eitt sinn tókum við upp á því í Sumargleðinni, - í gamni auðvitað, - að láta Magnús Ólafsson koma fram í gervi jólasveins um hásumar. Hann kallaði sig Júlísvein en þetta gekk aðeins eina helgi, - grínið virkaði ekki, ekki einu sinni á Sauðárkróki þar sem júlísveinninn var spurður að nafni og kvaðst auðvitað ekki heita Kjötkrókur, heldur Sauðárkrókur. 

Hvers vegna fær þessi dásamlega íslenska saga um þrettán jólasveina, sem byrja að tínast til byggað þrettán dögum fyrir jól, ekki að vera í friði? Þarf endilega að útvatna hana og færa jólasveinatímabilið sífellt framar og framar þangað til jólasveinninn verður júlísveinn?  


SAMA NIÐURSTAÐA - EFTIR SJÖ MÁNUÐI

Fyrir sjö mánuðum gerði ég það að einu helsta áhersluatriði mínu þar sem ég kom fram í umræðum vegna kosninganna að með óbreyttri stefnu myndu Íslendingar eyða allri orku landsins í álver upp á tæpar þrjár milljónir áltonna á ári og þar með sóa dýrmætum orkulindum og eyðileggja mesta verðmæti landsins, sem væri ósnortin náttúra. Þetta myndi aðeins útvega um 2% af vinnuafli landsins atvinnu og því fráleitt að þetta væri lausn á atvinnuvanda landsmanna.

Forystumenn hinna stjórnmálaflokkanna lögðu kollhúfur og forsætisráðherra sagði að þetta væru ýkjur.

Nú hefur Össur Skarphéðinsson reifað sömu niðurstöðu á flokksráðsfundi Samfylingarinnar hvað snertir heildarmyndina og hefur tekið hann sjö mánuði að komast að þessari niðurstöðu. Hið eina sem hann nefndi ekki var "lausnin" á atvinnuvandanum. Kannski fáum við eitthvað um það eftir sjö mánuði. 

Hinu ber að fagna og þakka að iðnaðarráðherra gerir sér nú ljóst hvert hin óhefta stóriðjustefna mun leiða okkur.  


mbl.is „Fjárfestingar á sviði jarðorku geta numið þúsundum milljarða"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TIL SÓMA FYRIR BÆNDUR Á AUSTURLANDI

Ég var að koma til Reykjavíkur úr leiðangri til Akureyrar og Egilsstaða. Á Akureyri var opnað Flugsafn, sem kannski verður notað sem leikhús í vetur og á Egilsstöðum héldu bændur uppskeruhátíð. Stemningin á þessari hátíð og bragur allur yfir fólkinu sem fyllti Valaskjálf minnti mig á ógleymanlegar stundir í gamla daga á uppskeruhátíðinni á sjómannadaginn í samkomuhúsinu í Vestmannaeyjum. 

Á svona samkomum er gaman að vera Íslendingur í hópi fólks sem kemur þangað í sínu besta pússi og er einhuga um að njóta samveru og skemmtiatriða af innlifun og opnum huga. Því miður er það oft svo á árshátíðum að erfitt getur verið á köflum fyrir ræðumenn og skemmtikrafta að fá hljóð vegna skvaldurs, sem oft skapast af völdum örfárra ölvaðra einstaklinga en breiðist út. 

Sem sagt: Þetta dæmigerða íslenska fyllerí.

Annað var uppi á tengingnum í Valaskjálf í gærkvöldi þar sem Magnús Jónsson veðurstofustjóri, heiðursgestur og ræðumaður kvöldins, söngdúettinn Heimasæturnar og söngkvartettinn Vallargerðisbræður fengu afburða góðar verðskuldaðar viðtökur.

Þegar fólk kemur saman glatt á góðri stund á þennan hátt er það ekki bara uppbyggjandi og skemmtilegt heldur til mikls sóma fyrir þá sem að því standa. Í gærkvöldi voru það bændasamtökin á Austurlandi sem áttu heiðurinn af því skapa eftirminnilega kvöldstund og höfðu fyrr um daginn glatt gamla fólkið á staðnum við góðar undirtektir. 

Þetta kunna bændur á Austurlandi enn og það gleður gamlan kúarektor úr Langadalnum.  


Bloggfærslur 4. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband