AÐ ÝMSU AÐ HUGA.

Það má fagna auknum áhuga á að leggja raflínur í jörðu. Hingað til hefur raflínulögn ofanjarðar verið afsökuð með því að hún sé svo margfalt ódýrari en lögn neðanjarðar. Á tímum stórvaxandi verðmætis orkunnar er þetta ekki einhlít afgreiðsla. Einn versti staðurinn þar sem raflína á alls ekki heima ofanjarðar er byggðalínan fyrir norðan Landmannalaugar. Af mörgum stöðum þar er einstakt útsýni til norðurs í góðu veðri, allt norður til Bárðarbungu af hæstu stöðunum.

Margir útlendingar sem ég hef hitt á þessum slóðum hafa ekki átt orð yfir það hvers vegna línan var lögð einmitt þarna. Þetta er ekki langur kafli en alveg ótrúlega áberandi.

Í sambandi við fyrirhugaðar línulagnir þvers og kruss um Reykjanesskagann hefur verið bent á það að miklu verra sé að komast að til viðgerða á línum neðanjarðar en ofanjarðar. Þar sem línurnar liggi þvert á sprungustefnur þurfi líka að huga vel að því að ekki verði óþarfa bilanir þess vegna.

Það er að ýmsu að huga í þessum málum og þess vegna er tímabært að taka þetta mál upp að nýju og sjá til hvort ekki sé hægt að breyta ýmsu sem hingað til hefur ekki verið talið hægt að gera.


mbl.is Vilja móta stefnu um raflínur í jörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VELDUR TÆMING LÓNSINS ÓRÓANUM NÚ ?

Í fyrstu bloggpistlum mínum um skjálftana við Upptyppinga setti ég fram þá tilgátu að líklegt yrði að þegar tæming Hálslóns hæfist myndu skjálftar aukast og að létting vatnsfargsins á jarðskorpuna myndi verða líklegri til að valda eldgosi heldur en þynging. Vísaði ég þar í það að snögg létting á vatnsfargi hefði valdið gosum í Grímsvötnum og þess vegna kynni hætta á eldsumbrotum að verða meiri  þegar liði á veturinn, jafnvel þótt létting lónsins væri mun hægari en hraðasta þyngingin. Má minna á að létting ísaldarjökulsins var mjög hæg fyrir 11 þúsund árum en gosvirknin þrítugfaldaðist samt við það norðan Vatnajökuls. 

Nú hefur það gerst samtímis, að þegar vatn er tekið að renna úr lóninu niður í stöðvarhúsið í Fljótsdal og lónið að lækka og léttast kemur mikil skjálftahrina sem er nær Kárahnjúkum en áður var.

Það vekur athygli mína, þegar ég ber saman lónhæðina og skjálftana nú í haust með því að skoða tölur Veðurstofunnar og Landsvirkjunar, að þegar lónið var að nálgast fulla hæð í september til nóvember og því var haldið í svipaðri hæð á þessum tíma með því að hleypa vatni um botnrás og síðar yfirfall, var rólegt við Upptyppinga.

Þess vegna kemur skjálftahrinan nú mér ekki á óvart að öðru leyti en því að ég hélt að hún kæmi  kannski seinna. Hin vegar kemur mér það á óvart þegar haft er eftir sérfræðingi Veðurstofunnar í fréttum Stöðvar tvö í kvöld, að með þessari nýju skjálftahrinu sé kenningin um að fylgni þunga Hálslóns skjálftanna geti bent til orsakasambands þarna á milli, fokin út í veður og vind.

Eins og sést í nýrri athugasemd minni hér fyrir neðan frá klukkan 13:45 virðist ég hafa misskilið það sem haft var eftir sérfræðingnum. Það sem hann átti við var svipað og ég segi hér fyrir neðan, að þegar umbrotin aukast kemur að því að þau verða svo öflug að þau fara sínu fram án tillits til lónhreyfinga. Að því leyti vísar hann ekki á bug tilgátunni um að tilvist lónsins hafi komið óróanum af stað, samanber ummæli Páls Einarssonar í fréttum í október s.l.   

Ég er bara leikmaður og þegar ég benti fyrstur manna á hugsanlegt orsakasamband milli fyllingar og skjálfta ríkti þögn um það meðal vísindamanna. Síðan féllst sá virti jarðvísindamaður Páll Einarsson á að ekki væri hægt að útiloka það, enda fylgdust línurnar sem sýndu skjálfta og mismunandi hraða á hækkun lónsins svo kyrfilega að, að með ólíkindum var.

Það verður spennandi að fylgjast með því hvort hæð lónsins og skjálftavirknin muni fylgjast að áfram. Hugsanlega verður uppstreymi kvikunnar sem hófst í sumar brátt orðið það mikið að hrinurnar byrja að fara eigin ferla eftir því sem nær dregur yfirborði.

Það verður líka spennandi að sjá hvað á eftir að "fjúka út í veður og vind" áður en upp er staðið.  

 


mbl.is Ekkert lát á jarðskjálftum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. desember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband