KALT MAT ER MANNÚÐLEGT.

Í nýlegri kosningabaráttu þrýstu frambjóðendur í kjördæmunum sunnan- og vestanlands mjög á um lagningu tvöfaldaðra vega austur fyrir fjall og upp í Borgarnes. Um þetta myndaðist samkeppni sem byggðist ekki á ítarlegum rannsóknum á því hvaða lausn skilaði mestum árangri fyrir þjóðina sem heild heldur meira á hagsmunum á takmörkuðum svæðum.

Fyrir liggja tölur frá útlöndum um árangur og kostnað af vegabótum sem virðast benda til þess að með því að láta dýra tvöföldun veganna austur og norður frá höfuðborgarsvæðinu hafa forgang, muni seinka svo mjög brýnum vegabótum annars staðar að heildarútkoman verði fleiri alvarleg slys og banaslys en ef 2 plús 1 lausnin væri notuð til Selfoss og Borgarness að öllu eða einhverju leyti.

Miklu skiptir að gerð sé áætlun langt fram í tímann, nógu langt til þess að sjá fyrir hvenær hvort eð er þurfi síðar 2 plús 2 veg til Borgarness og Selfoss, þótt ekki sé nema umferðarþungans vegna. Þá þarf að liggja á borðinu fyrirfram hve mikill viðbótarkostnaður fælist í því og reikna það með í heildardæminu. 

Enn hafa ekki sést nein svör við spurningum Rögnvalds Jónssonar um þetta efni og því miður er líklegt að ekki hafi verið kafað ofan í þetta mál af þeirri alvöru og metnaði sem spurningin um mannslíf og örkuml krefst.

Útkoman úr slíkri alvöru rannsókn fæli í sér það sem er kallað "kalt mat", blákaldar tölur um dauða, örorku, meiðsl og tjón. Orðin kalt mat eru oft notuð sem andstæða við mannúð og tilfinningar. Í þessu tilfelli er í raun ekki til meiri mannúð og tilfinning en felst í því að sjá á hvaða hátt er best hægt að varðveita líf og limi vegfaranda og minnka þjáningar og tjón.

Hér má ekki láta atkvæðakapphlaup í kjördæmum villa okkur sýn heldur hagsmuni þjóðarinnar sem heildar, þjóðar sem býr í einu landi en ekki mörgum.  


HVE MARGIR EIGA LEIÐ TIL HVAMMSTANGA ?

Var að koma úr leiðangri til Sauðárkróks og Blönduóss til að árita nýjar Stiklur og undraðist í ca 800. skiptið á því að hvergi á þessari leið sér ókunnugur vegfarandi hve langt er til Staðarskála eða Bifrastar en hins vegar er þess skilmerkilega getið á skiltum hve langt er til Hvammstanga en þangað eiga kannski 1-2% vegfarenda leið. Á leiðinni milli Borgarness og Blönduóss eru það líklega vel yfir 90% vegfarenda sem kæmi sér vel fyrir að vita hve langt er í veitinga- og bensínsöluna í Hrútfirðinum, sem er helsti áfangastaðurinn á þessum kafla hringvegarins. 

Þetta sést að vísu á litlu bláu skilti rétt áður en komið er að sunnan að Brú, og þá eru aðeins 5km eftir í Staðarskála og Brú er nokkur hundruð metra í burtu. 

Sjálfum væri mér nákvæmlega sama þótt engin skilti væru, - undrast þetta bara fyrir hönd þeirra sem myndu njóta forgangs hins gríðarlega stóra meirihluta sem þarf á þessum upplýsingum að halda frekar en það hve langt sé til Hvammstanga.

Ef það er atriði í málinu að Hvammstangi sé þorp er það ekki nægileg röksemd fyrir því að taka þennan stað fram yfir helstu áfangastaði á leiðinni. Í Bifröst er líka fjölmenni í vaxandi þorpi og aðeins er 1km frá hringveginum að bensínsölu og sjoppi í þorpinu á Laugabakka í Miðfirði sem hugsanlega kæmi sér vel fyrir bensínlítinn eða þurfandi vegfaranda að vita um.

Í Víðihlíð og Baulu er líka þjónusta sem margfalt fleiri þyrftu að vita um en Hvammstanga.  

Á þessa staði færi vegfarandi frekar til að fá slíka þjónustu en 6km fram og aðra 6km til baka út á Hvammstanga.

Hvammstangabúar fara það oft um næstu kafla hringvegarins að þeir vita vel um fjarlægðina heiman og heim. En þeir eru bara samt það fáir að umferð þeirra um hringveginn er eins og ég giskaði á áðan, líklega aðeins milli 1 og 2% af heildinni.

Með þessu er ég ekki að gera lítið úr Hvammstanga og leiðinni út fyrir Vatnsnes sem er vel þess virði fyrir ferðafólk að skoða. En yfir 90% erinda um þennan kafla hringvegarins snýst um gang og skipulagningu ferðarinnar eftir hringveginum án útúrdúra.

Auðvitað væri gott að sem mestar upplýsingar um vegalengd til flestra staða væri að sjá á hringveginum en það verður að forgangsraða og hafa í huga að þjónusta þann hóp best sem stærstur er og mest þarf á upplýsingum að halda, en það eru vegfarandur, sem ekki þekkja vel til vegalengda á leiðinni. Og þeir eru sko margir á okkar tímum þegar æ fleiri vita lítið um lífið utan suðvesturhornsins og íþrótta- og skólakrakkar eru upplýstir um það hve langt sé í Staðarskála með því að segja að þangað sé "tveggja spólu ferð" frá Reykjavík. 

Ég gæti alveg fellt mig við það að á einu skilti sitt hvorum megin við Hvammstanga væri greint frá vegalengdinni þangað og bætt við skiltum sem greina frá vegalengdum til áfangastaðanna í Hrútafirði eða jafnvel fleiri áfangastaða á leiðinni Borgarnes-Blönduós.  

Eins og áður sagði er Hvammstangi að þessu slepptu hinn merkasti staður og þegar ég var ungur heyrði ég dæmi um gott tilsvar þegar Stefán Íslandi átti tal við mann sem hann þekkti ekki, og sýndist sá maður ekki vera merkilegur. Stefán var þá heimsfrægur á Íslandi og meðvitaður um það, enda innistæða fyrir því.

Hann sagði við viðmælanda sinn, hnarrreistur og stoltur: "Veistu ekki hver ég er? Ég heiti Stefán Íslandi." Hinn rétti þá úr sér og horfði stoltur framan í stórsöngvarann og sagði: "Ég heiti Magnús Hvammstangi."

Hentu þeir sem viðstaddir voru gaman að því að við þetta varð Stefán alveg kjaftstopp. 

Svona minnir mig að mér hafi verið sögð þessi saga og síðan hefur mér alltaf þótt svolítið vænt um Hvammstanga og fólkið þar og þykir enn, þrátt fyrir þennan vegaskiltapistil. Ég bið bara um það að fólk fái að vita um vegalengdina til fleiri staða en þangað á þessum hluta hringvegarins.


Bloggfærslur 16. desember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband