EKKI KENNA GEMSANUM UM GAMLAN ÓSIÐ.

Sigurður Þór Guðjónsson bloggar um vandræðagemsann í dag og finnur honum allt til foráttu. Þetta er ekki rétt nálgun að mínu viti og vandamálið er miklu eldra og víðtækara og snýst um kurteisi og tillitssemi,- um rétta forgangsröðun viðmælenda. Röð viðmæland okkar á að vera þessi: 1. Sá sem er að tala við þig augliti til auglitis. Klára viðtalið við hann. 2. Næsti viðmælandi þinn á vettvangi á sama hátt.. 3. Sá sem er fyrstur í röð þeirra sem vilja ná tali af þér í síma.

Það eru margir áratugir síðan sá ósiður var tekinn upp hér á landi að ef síminn hringdi var svarað umsvifalaust í hann og snúið baki við viðmælanda eða viðmælendum á staðnum. Upphaflega réði sennilega nýjbrumið á símanum.

Þetta er enn gert miskunnarlaust og er argasti dónaskapur og heldur ekki skynsamlegt. Sá sem hefur haft fyrir því að koma á manns fund og stendur augliti til augliti við mann á auðvitað að hafa forgang yfir einhvern sem situr á rassgatinu ein hvers staðar úti í bæ og hringir.

Á nýjum símum sést langoftast á skjánum hver er að hringja. Ef svo er, þarf ekki að svara strax ef einhver er hjá manni, heldur er hægt að hringja til baka við fyrsta tækifæri. Ef mjög mikið liggur við og hætta er á að missa af mikilvægu símtali af því að ekki sést númer á skjánum (t.d. hringt úr skiptiborði) , má svara örstutt og segja: "Ég er upptekinn, - hringdu aftur eftir x...mínútur.

Ef fólk er statt á stað þar sem símhringingar valda ónæði er auðvelt að stilla símann þannig að hvorki heyrist í honum né hann titri. Ef alveg óskaplega mikilvægt símtal kynni að vera að detta inn má hafa augun á símanum án þess að aðrir verði þess varir og fylgjast með því hvort ljós kvikni á skjáborði hans við hringingu.

En grundvallaratriði hlýtur að vera að síminn valdi ekki truflun.

Við erum líklega öll búin að margbrjóta ofangreindar reglur sem smám saman hafa lokist upp fyrir mér.

Eigum við ekki að reyna að taka okkur taki og kippa þessu í lag?


ÓLAFUR F. KEMUR STERKUR INN.

Ólafur F. Magnússon stóð sig vel að mínum dómi í Silfri Egils í dag og ætti því að koma sterkur inn í borgarmálapólitíkina. Ólafur hefur þá sérstöðu meðal stjórnmálamanna okkar daga að hafa gengið í gegnum vítiseld ofsókna vegna skoðana sinna. Ég segi ofsóknir því að ég finn ekki betra orð yfir það hvernig hann var úthrópaður sem hryðjuverkamaður á landsfundi flokks síns í desember 2001 og hrakinn úr ræðustóli.

Þessi uppákoma var lygileg þegar þess er gætt að fundarstjóri, sem náði því á framaferli sínum að verða forseti elsta löggjafarþings heims, lét sér þessi ólýðræðislegu og ruddalegu vinnubrögð vel líka.

Ætlun þeirra sem að þessu stóðu var að niðurlægja Ólaf sem allra mest og láta hann finna svo fyrir svipunni að hann bæri ekki sitt barr eftir. En stundin sem fyrir flesta hefði orðið stund ósigurs og niðurlægingar varð í staðinn að stærstu stund Ólafs F. Magnússonar að mínum dómi. Það mun sagan staðfesta þótt síðar verði og letra nafn Ólafs gullnu letri fyrir staðfestu og trúfesti við góðar hugsjónir.

Vopnin snerust í höndum andstæðinga hans sem ekki tókst það ætlunarverk sitt að fella hann úr borgarstjórn 2002 og kosningarnar 2006 urðu mikill sigur fyrir hann og fylgismenn hans.

Í stað þess að mynda meirihluta í borgarstjórn sem hefði að baki sér meirihluta kjósenda eins og eðlilegast hefði verið varð annað uppi á teningnum. Sjálfstæðismenn brugðu á það ráð að fara aðra leið.

Nú heyrir það borgarstjórnarsamstarf fortíðinni til og ný staða er komin upp í borgarmálapólitíkinni.

Ég hef áður bloggað um hinn fráleita uppslátt þess að Ólafur framvísaði læknisvottorði við endurkomuna. Það var að sjálfsögðu hans einkamál og engar reglur borgarstjórnar virðast kveða á um að það sé skylt.

Ég nefndi dæmin um tímabundin og mislöng veikindaleyfi Ólafs Thors, Ronalds Reagan, Ólafs Ragnars Grímssonar, Össurar Skarphéðinssonar, Georg Bush og Ingibjörgar Pálmadóttur. Í engu þessara tilfella var verið að spá í hvort læknisvottorð hefðu orðið til eða ekki.

Það er rétt hjá Ólafi F. Magnússyni að skrýtið var hvernig þetta mál, sem engu skipti, var komið í gang á fjölmiðlunum á augabragði. Ég vil samt ekki útliloka að þetta hafi getað verið eins konar slys.

En á sama hátt og nákvæmlega ekki neitt var blásið upp og gert að "stóra vottorðs málinu" á það skilið að vera ekki nefnt á nafn meir.

Það er af nógum öðrum verkefnum að taka í borgarmálunum og alveg eins og í borgarstjórnarkosningunum 2006 geta þau Ólafur og Margrét látið að sér kveða.

Velkominn til starfa á vettvangi hugsjóna þinna, Ólafur F. Magnússon.


Bloggfærslur 2. desember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband