ÞRJÁR KRAKATÁR Á ÍSLANDI ?

Fyrri hluti leikinnar heimildarmyndar um gosið mikla í Krakatá 1883 og mynd sem hefur áður verið sýnd í Sjónvarpinu um Pompei minnir okkur á þrjú hættulegustu eldfjöll Íslands, Snæfellsjökul, Heklu og Öræfajökul.
Snæfellsjökull og Öræfajökull eiga það sameiginlegt með Vesúvíusi, St. Helenu í Bandaríkjunum og St. Pierre á Martinique að geta gosið á þann hátt að flóð af sjóheitri, öskublandaðri gufu æði langa vegalengd niður fjallið og drepi allt sem á vegi þess verður.

Í eimyrjuflóðinu frá St. Pierre fórust 40 þúsund manns á ca 1-2 mínútum 1904 og hugsanlega hefur svipað gerst þótt í minna mæli væri í eldgosinu í Öræfajökli 1362.

Snæfellsjökull hefur verið óvirkur lengi en menn segja ekkert ósvipað um hann og sagt var um Vestmannaeyjar fyrir 1963 að þær væru óvirkar. Annað kom á daginn.

Snæfellsjökull er líklegast hættulegasta fjall á Íslandi ef á annað borð gýs þar, því að nálægt honum er þéttbýli, einkum við norðanvert fjallið.

Eftir Heklugosið 1990 settu jarðfræðingar það fram að eðli fjallsins væri að breytast á þann hátt að í stað eins til tveggja gosa á öld gysi nú með tíu ára millibili. Það kynni að vera byrjun á ferli sem gæti endað með því að fjallið spryngi líkt og Krakatá.

Það er merkileg tilviljun að nákvæmlega ein öld leið á milli gosanna í Lakagígum og Krakatá og bæði gosin sendu svo mikið af gosefnum upp í lofthjúpinn að það varnaði geislum sólar leið til jarðar og afleiðingin var kólnun sem stóð í nokkur ár.

Lakagígagosið 1783 kann að hafa átt þátt í frönsku stjórnarbyltingunni að því leyti að vegna slæms og kalds árferðis dróst uppskera saman í Frakklandi og ýtti undir óánægju alþýðunnar.

Aðstaðan er önnur nú en 1883 og 1904 hvað snertir þekkingu manna á eðli eldsumbrota jafnt neðan jarðar sem ofar.

Þess vegna var hægt að rjúfa útsendingu útvarpsins 2000 og tilkynna, að gos myndi hefjast í Heklu innan hálftíma.

Enn verður þó að hafa varann á og umgangast hin miklu reginöfl af þeirri virðingu sem þeim ber, hvort sem það eru "Kverkfjallavættir reiðar" í ljóði Jóns Helgasonar eða Hekla, frægasta og illræmdasta eldfjall landsins.


ÁRATUGIR Í ÞVÍ AÐ "KOMA XX ÚT AF MARKAÐNUM."

Í upphafi var Eimskipafélag Íslands kallað "Óskabarn þjóðarinnar." Smám saman olli markaðsráðandi staða fyrirtækisins hinu óhjákvæmilega, að sveigja það í að viðhalda þessari stöðu og helst einokun með öllum ráðum. Ég segi "óhjákvæmilega" því að þetta er bara mannlegt og ef "kerfið" býður upp á það verður það þannig á endanum. Kannski kemst ein stjórn eða stjórnandi hjá þessu en síðan tekur annar við og lætur freistast til að nýta sér aðstöðu sína.

Þessi tilhneiging mannlegs eðlis var aðalástæðan fyrir því að ríkiseinokunin í Sovétríkjunum mistókst, - það var engin samkeppni sem gat veitt aðhald. 

Ég veit um aldarfjórðungs gamalt dæmi þess að Eimskip gerðu það sem hægt var til að ryðja af markaðnum keppinaut í þjónustu eftir að varningurinn var kominn til landsins. Á þessum tíma lét fyrirtækið sér ekki nægja að stunda skipaflutninga heldur setti á fót þjónustu alls óskylda flutningunum og reyndi það sem það gat til að nýta aðstöðu sína sem eini flytjandi varnings til landsins til að klekkja á þeim sem var fyrir með þessa þjónustu. 

Í krafti stærðar og einokunar var hægt að undirbjóða og nota allt það sem þjóðin heyrir nú að hafi verið sett á blað á minnisblöðum.  

Það var aðeins vegna seiglu og baráttuþreks þess sem átti að "koma út af markaðnum" að honum tókst að halda velli. Úrstitum réði þó að Eimskip ofmátu getu sína hvað snerti gæði í þessari þjónustu og smám saman sáu viðskiptavinirnir hvernig í pottinn var búið og sneru viðskiptum sínum hægt og bítandi til hins eldra fyrirtækis.

Mér er mætavel kunnugt um að þessi aðferð Eimskipa olli keppinautnum miklu tjóni.

Óþarfi er að fjölyrða um Hafskipsmálið. Sem betur fer skilst mér að verið sé að athuga það að nýju hvers vegna og hvernig  Hafskipum var hrundið í gjaldþrot án þess að vera gjaldþrota. En auðvitað högnuðust Eimskip á því að helsta keppinautnum "var komið út af markaðnum", hvort sem um beina aðild að aðförinni var að ræða eða ekki.

Athyglisvert var hvernig SÍS var síðar bjargað frá gjaldþroti í verri stöðu en Hafskip en vonandi getur ný rannsókn á þessum málum leitt betur í ljós hið sanna.  

Á þessum tíma var talað um "Kolkrabbann" og veldi hans eða þeirra fjórtán fjölskyldna sem rætt var um að ættu allt á Íslandi.  

Eitthvert stærsta hagsmunamál okkar tíma er að efla samkeppniseftirlit og möguleika á þeirri samkeppni í verslun og þjónustu sem getur komið Íslendingum ofan úr því vafasama hásæti að vera dýrasta land í heimi. 

Með þessum pistli er ég alls ekki að leggja dóm á einstök fyrirtæki, þau er nú starfa, og það þarf ekki að vera sjálfgefið að öflug fyrirtæki nýti sér um of sterka stöðu á markaði, fremur en að allir einvaldar í Evrópu hafi verið slæmir. Sumir heinna "menntuðu einvalda" átjándu aldar reyndu að taka hlutverk sitt hátíðlega, litu á konungdóm sinn sem gjöf frá Guði og sjálfa sig sem þjóna Drottins með umboð frá honum.

Þessi pistill er um Eimskip fortíðarinnar. Nú er vonandi runninn upp betri tíð þar sem framangreind vinnubrögð þekkjast ekki lengur.  

En við erum öll mannleg og höfum lært að forðast fákeppni og einokun vegna þess að of mörg dæmi eru um að það hafi reynst varasamt að koma mönnum og fyrirtækjum í þá aðstöðu.  

 

 

 


EITT Í EINU, - BETRI AKSTUR.

Það hefur verið gantast með það að karlmenn geti bara gert eitt í einu. Nokkurt sannleikskorn er í þessu hvað varðar allt fólk og ekki hægt að neita því að krefjandi símtal eða tilfinningaþrungið samtal bílstjóra dregur úr einbeitingu hans. Mismunandi mikil þörf er á einbeitingu við akstur. Á beinum veginum á Mýrdalssandi er lítið um að vera en eitt helsta vandamál umferðar í borg er það að ökumenn gera ekkert til að liðka til fyrir akstrinum heldur böðlast áfram tillitslaust.

Ég held að það væri til bóta fyrir umferðina að við tökum upp þá reglu að tala ekki í síma nema stöðva bílinn á meðan. Yfirleitt sést á birti símans úr hvaða númeri er hringt og þá hægt að hringja til baka síðar, og einnig er hægt að fletta númerinu upp í símanum eftir að bílnum hefur verið lagt til þess tala í símann.

Sé hringt úr skiptiborði sést oft ekki númer á birtinum eða þá að svo margir eru tengdir við skiptiborðið að ómögulegt er að finna út eftir á hver hafi hringt. Þá er hugsanlegt að svara stutt í símann og biðja viðkomandi að hringja aftur eftir ákveðinn tíma þegar betur stendur á.

Gott væri ef stór fyrirtæki með skiptiborð gætu útbúið það þannig að númer starfsmannsins sæist ávallt þegar hann hringir út. Þannig er það til dæmis á Fréttablaðinu.

Af framansögðu má ráða að það er vel hægt að útrýma símtölum bílstjóra í akstri ef vilji er fyrir hendi. Það þarf engar kannanir til þess að komast að því að akstur og símtöl fara ekki saman, - aksturinn er meira krefjandi en svo og öryggið á að vera fyrir öllu.

Hve oft sjáum við ekki ökumenn sem gefa ekki stefnuljós og haga sér undarlega í umferðinni vegna þess að þeir eru uppteknir við að tala í símann? Lítum nú hvert í eigin barm og gerum bragarbót. Ég sé ekki annað en að hægt sé að nýta sér þessa samskiptatækni með ofangreindum ráðum og viðhalda jafnframt eins öruggum og góðum og tillitssömum akstri og unnt er, - án símtala.


mbl.is Handfrjálsir farsímar hættulegir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. desember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband