POPPLAG Í D-DÚR, ENGIN LEIÐ AÐ HÆTTA.

Stuðmenn sungu um það að engin leið væri að hætta í popplagi í G-dúr. Nú syngja stuðmenn íslenskra stjórnmála popplag í D-dúr og það er engin leið að hætta að ráða trekk í trekk "innvígða og innmúraða" í helstu embætti íslenska dómskerfisins. Með þessu er ekki sagt að það sé einhlítt að umsagnaraðilar hafi ávallt rétt fyrir sér um mismikla hæfni umsækjenda og þess vegna kann vel að vera að Þorsteinn Davíðsson muni reynast jafn vel í embætti og til dæmis hinn umdeildi og óreyndi Pálmi Hannesson eftir að hann var ráðinn rektor Menntaskólans í Reykjavík og í ljós kom í áranna rás að hann gegndi starfinu af mikilli reisn og virðingu. 

Þegar það er hins vegar farið að nálgast reglu að þegar hinir innvígðu sækja um séu þeir teknir fram yfir aðra, sem umsagnaraðilar telja hæfasta, er hverjum þeirra sem um sig, sem ráðnir eru, enginn greiði gerður með svona háttalagi, nú síðast Þorsteini Davíðssyni.

Hér á árum áður voru nánast allir sýslumenn landsins og dómarar úr helmingaskiptaflokkunum Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Ævinlega var hægt að benda á að hver þeirra væri hæfur til starfans en það var vafalaust líka hægt að gera í Sovétríkjunum þar sem aðeins voru ráðnir menn sem voru "innvígðir" félagar í kommúnistaflokknum.

Að því leyti til var íslenska kerfið verra en það sovéska að þar í landi var ekkert verið að fela það að aðeins félagar í kommúnistaflokknum gátu fengið embætti. Það var bundið í lög í landinu þar sem allir áttu að vera jafnir en í ljós kom að sumir voru svo miklu jafnari en aðrir að á endanum molnaði þetta kerfi innan frá.   


Bloggfærslur 21. desember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband