22.12.2007 | 01:49
GULLFOSS NÆST - SIGRÍÐUR HVAÐ ?
Sýslumaðurinn á Selfossi viðraði í fréttum Sjónvarpsins í kvöld hugmynd, sem virðist eiga vaxandi fylgi að fagna, sem sé að virkja Gullfoss. Hann orðaði það að vísu svona: "...að virkja fyrir ofan Gullfoss." Það þýðir auðvita virkjun fossins, því að að ekki er hægt að taka vatnið í Hvítá fyrir ofan fossinn og leiða það í göng niður í stöðvarhús nema að taka það vatn af fossinum. Framtíðarsýnin virðist vera sú að báðar árnar, Hvítá og Þjórsá, verði fullvirkjaðar og hægt að hafa hemil á flóðum í þeim.
Jakob Björnsson hefur bent á það að hægt verði að láta vera "ferðamannarennsli" í Gullfossi á ákveðnum tímum ársins, einkum síðsumars eftir að miðlunarlónið Hvítárvatn yrði orðið fullt sem og hugsanlegt nýtt, tilbúið lón ofan við Gullfoss. Þessir ágætu herramann, Ólafur Helgi og Jakob, tala að vísu lítið um það hvaða áhrif það myndi hafa á umhverfi Hvítárvatns að hleypa því upp og niður með tilheyrandi leirbornum og þurrum fjörum þegar minnst yrði í vatninu.
Tilbúið lón fyrir ofan Gullfoss getur verið í hvarfi frá fossinum og því leynt fyrir ferðamönnum sem koma í Sigríðarstofu til að dást að baráttu hennar gegn virkjun fossins.
Einnig er auðvitað í lófa lagið að endurhanna Sigríðarstofu og breyta um nafn á henni og fjarlægja allt sem minnir á það að barist hafi verið gegn virkjuninni. Annað eins er nú gert.
Í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" var það niðurstaða mín að virkjun bæði Geysis og Gullfoss myndi valda minni óafturkræfum neikvæðum umhverfisáhrifum en Kárahnjúkavirkjun.
Nú verður vafalaust hægt að henda þessa niðurstöðu mína á lofti sem röksemd fyrir að virkja bæði Geysi og Gullfoss. Geysir er hvort eð er hættur að gjósa og hægt yrði að skábora í nágrenni hverasvæðisins. Framtíðardraumurinn er greinilega sá að hvergi á öllu svæðinu frá Reykjanesi um Suðurlandsundirlendið og hálendið allt til norðurstrandarinnar verði þverfótað fyrir virkjunum, stíflum, lónum, háspennulínum, borholum, stöðvarhúsum og gufuleiðslum.
Rökin fyrir því að virkja Neðri-Þjórsá eru þau að margar aðrar virkjanir valdi meiri umhverfisspjöllum. Þetta er það sem ég óttaðist allan tímann þegar deilt var um Kárahnjúkavirkjun, - að eftir að svo hrikaleg umhverfisspjöll fengju framgang teldu virkjanasinnar að allir vegir væru færir, - fordæmið væri fyrir hendi, - stærsta virki umhverfisverndarfólks fallið.
Halli og Laddi áttu á sínum tíma hina skemmtilegu setningu: Jóla- hvað? Nú er hægt að bæta við: Sigríður í Brattholti hvað? Og líka: Gullfossvirkjun, Geysisvirkjun og álver í Þorlákshöfn, stærsta jólagjöfin til þjóðarinnar árið 2012 !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)