23.12.2007 | 12:06
"HÚN VAR GÓÐ, SKATAN!"
Faðir minn heitinn var í sveit í Hrafnadal í Strandasýslu. Þetta er eyðidalur sem gengur upp í heiðina fyrir vestan norðanverðan Hrútaförð. Þá var dalurinn afskekktur og frumstætt lífið þar, menn átu sterk reykt og saltað árið um kring. Sigurður bóndi varð slæmur í maga fyrir bragðið og þurfti að fara til Reykjavíkur í fyrsta sinn á ævinni til að láta lækna líta á sig. Þetta var á byrjunarstigi og karlinn tók fljótt við sér og varð hinn hressasti.
Pabbi bauð honum í flugtúr yfir borgina í lítilli fjögurra sæta vatnaflugvél af gerðinni Seebee og þetta varð jafnframt minn fyrsti flugtúr, en ég var átta ára. Þegar heim kom buðu foreldrar mínir upp á skötu. Karlinn hafði aldrei etið skötu fyrr og var tregur til, fannst lyktin ekki aðlaðandi. Á endanum lét hann til leiðast og smakkaði á. Er skemmst frá því að segja að honum líkaði stórvel. "Hún ER góð, skatan!," hvein í honum og hann endurtók þetta aftur og aftur en breytti því í "hún VAR góð, skatan" næstu daga á eftir.
Hann þurfti tvívegis síðar að koma til Reykjavíkur til lækninga og fór með okkur í leikhús í fyrsta sinn. Hann heilsaði foreldrum mínum með orðunum: "Hún VAR góð, skatan!" Hann gat ekki gleymt henni, - flugtúr og leikhúsferð gátu ekki toppað skötuna.
Þegar magakrabbinn sótti á að lokum og hann lagðist banaleguna á Landakotsspítala fór ég einu sinni með pabba að heimsækja hann. Hann átti skammt eftir, það var hörmung að sjá hann þar sem hann lá í móki. Hann leit þó upp þegar pabbi heilsaði honum.
Þegar hann sá okkur feðgana færðist bros yfir andlitið þegar hann stundi lágt: "Hún VAR góð, skatan."
Á hverri Þorláksmessu minnist ég hins ógleymanlega bónda úr afdalnum og segi við sjálfan mig: "Hún VAR góð, skatan! Og hún ER ennþá góð, hvað sem hver segir af því að Sigurður heitnum í Hrafnadal fannst hún góð.
Gleðilega Þorláksmessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)