GRÆNLANDSJÖKULL - HVÍT JÓL.

Gleðileg jól, - hvít og friðsæl jól. Eftir óralanga rigningartíð er logndrífa af hvítum snjó og hún leiðir hugann að Grænlandsjökli, hinu ógnarstóra, óhaggalega hvíta víðerni aðeins tæplega þrjú hundruð kílómetra undan Hornströndum og ræður svo miklu um veðurfarið á Íslandi. Á korti sem ég sá nýlega af þeim mikla ís sem hefur þegar bráðnað norður af Kanada, stakk í augun hve lítill hluti þessa auða sjávar lá við norður- og norðausturhorn Grænlands.

Muhammad Ali var eitt sinn beðinn að spá fyrir um úrslit væntanlegs bardaga hans við einn skæðasta andstæðing hans. Ali svaraði með spurningu: Hve lengi getur ísklumpur í sjóðheitum ofni staðist hitann?

Samlíkingin var fullkomin hvað snerti hinn komandi bardaga og á hverju vori má á flugi yfir Ísland sjá dæmi um það hve tregða kuldans í ísnum á íslenskum fjallavötnum heldur ísnum lengi við þótt landið allt um kring sé fyrir löngu orðið marautt.

Það má sjá það fyrir sér að allur ís verði horfinn af norðurskautinu löngu áður en Grænlandsjökull verður bráðnaður niður í botn, hinn meira en 3000 metra þykki ísklumpur í ofni hlýnandi loftslags gróðurhúsaáhrifanna af útblæstri mannsins.

Um langa framtíð verður þessi gríðarlegi kuldaskjöldur aðeins 300 km frá Íslandsströndum og hefur meiri áhrif á veðurfar á Íslandi en flest annað, býr til andstæðu við hlýju loftbylgjurnar sem koma norður með austurströnd Ameríku og sunnan úr Atlantshafinu, sem knýr krappar og djúpar lægðirnar, kenndar við Ísland í nágrannalöndum okkar í Evrópu.

Á sumrin má stundum sjá hliðstæðu í Vesturbyggð þegar mjög hlýtt er á Barðaströnd. Þá stígur loft þar upp og til verður hringrás sem dregur kalt loft utan af Grænlandshafi inn í Patreksfjörð, Tálknafjörð og Arnarfjörð. Innlögn er þetta kallað á Patreksfirði og hún byrjar því fyrr og er því öflugri sem hlýrra er á Barðaströnd.

Ég hef farið einu sinni yfir Grænlandsjökul og hreifst af mikilleik hans, - reynt að lýsa honum í bókinni "Ljósið yfir landinu", og leyfi mér stundum í hálfkæringi að kalla Vatnajökul "skaflinn" í samburði við stærsta ísjöfur norðurhvelsins sem allt of fáir Íslendingar hafa kynnst.

Við getum kannski þakkað Grænlandsjökli það að fá hvít jól nú og um ókomin ár á meðan "ísklumpurinn stenst hitann í ofninum" eins og Ali orðaði það. Og einnig bölvað honum fyrir það hve seinlega það gengur fyrir hann að beygja sig fyrir afleiðingunum af gerðum okkar mannanna.

Enn og aftur: Gleðileg jól, - hvít og friðsæl jól.


JÓLAKÖTTURINN Á SPÁNI.

Ósk Eiðs Smára Guðjonhsen um þá jólagjöf að fá að spila leikinn við Real Madrid rættist ekki. Þjálfari liðsins reyndist vera Jólakötturinn sjálfur sem Eiður lenti í. En kannski var það ekki það versta sem gat komið fyrir Eið því að nú hneykslast spánskir sparkspekingar á þessu framferði Rijkards og benda á það hve þeir voru slappir sem voru valdir í stað Eiðs.

Athyglisverð er úttekt í blaði á því hve lengi þeir tíu miðju- og framlínuleikmenn Barcelona sem til greina koma, hafa spilað á leiktíðinni. Þá kemur í ljós að aðeins tveir hafa verið valdir oftar í byrjunarliðið og spilað lengur.

Þessi niðurstaða er alveg á skjön við þá mynd sem hér á landi hefur verið dregin upp af stöðu og gengi Eiðs hjá liðinu og einhvern tíma hefði maður látið segja sér það tvisvar að Eiður væri talinn eiga frekar að hafa verið inni á vellinum í þýðingarmiklum leik en sjálfur Ronaldinho.

Þetta sýnir að Eiður hefur alveg staðið fyrir sínu í keppni við gríðarlega góða knattspyrnumenn um að komast í byrjunarlið þessa meistarliðs sem nú hefur fatast flugið að manni skilst vegna þess að félagar Eiðs eru ekki í góðu formi þessa daga þegar hann blómstrar.

Eiður á heiður skilinn fyrir þrautseigju sína og vilja og verðskuldar góðar jólakveðjur frá aðdáendum sínum hér heima á klakanaum.


mbl.is Rijkaard gagnrýndur fyrir að velja Deco umfram Eið Smára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. desember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband