26.12.2007 | 22:07
ÞYRFTU AÐ FARA Í MEÐFERÐ.
Ég vorkenni þeim mönnum sem varpa skugga á sjálft jólahaldið hjá samsveitungum sínum með skemmdarverkum. Þeir hljóta að eiga bágt sálarlega og eru sennilega haldnir áráttu sem þeir ráða ekki við og þyrftu að fara í meðferð til að lækna. Það er spurning hvort hér er um sömu menn að ræða og farið hafa með skemmdarverkum um Austurland undanfarin ár, allt frá Kringilssárana til Háreksstaða og Reyðarfjarðar. Í apríl-maí 2006 var ráðist á "Rósu", Feroza-jeppann minn í Kringilsárrana og hann grýttur og skemmdur, síðan aftur þegar hún var komin á land hinum megin við Hálslón og þá tekin undan henni öll hjól og þeim stolið.
Loks var stolið utanborðsmótor af Örkinni nú í haust þar sem hún stóð við vinnubúðir Suðurverks. Ég hef heyrt um skemmdarverk á bílum, sem hafa verið skildir bilaðir eftir á Háreksstaðaleið.
Skemmdarverkin hafa verið unnin það víða að skemmdarvargarnir hljóta að ráða yfir góðum og öflugum fjallabílum, - annars hefðu þeir til dæmis ekki verið á ferð í Kringilsárrana á þeim tíma sem aðeins jöklajeppar komast þangað.
Annað einkenni er að skemmdarverkin hafa alltaf verið unnin á frídögum eða um helgar. Það bendir til að Bakkus eigi hlut að máli hjá einhverjum þeirra.
Gott fólk og gott samfélag á Austurlandi eiga ekki skilið að svartir sauðir varpi skugga á það.
![]() |
Skemmdarvargar á Reyðarfirði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.12.2007 | 13:21
KÆRKOMIÐ FRÉTTALEYSI ?
Fréttafíklar geta átt bágt um jólin. Í gær voru helstu fréttirnar það sem allir vissu, hvernig veður var úti, - að guðsþjónustur voru haldnar, að reynt var að gera útigangsfólki jólin bærilegri o.s.frv. Í erlendu máli er norðið "nýtt" notað um fréttir, "nyheder og news", þ. e. að frétt sé aðeins það sem öðruvísi en það sem fyrir er. Ég hef oft á starfsferli mínum þurft að rökstyðja það að eitthvað sé "ekkifrétt" með því að vísa í orðaval nágrannaþjóðanna um þetta fyrirbæri.
Einu sinni var gerð tilraun á Stöð tvö að mig minnir að hafa engar fréttir á jóladag í sparnaðarskyni. Ekki man ég til þess að nein sérstök frétt hafi verið á ferðinni á þessum degi en það var allra manna mál að svona lagað mætti aldrei gerast aftur.
Ég held að það sé ákaflega gott að ekkert gerist fréttnæmt um jólin. Það ætti að geta hjálpað okkur til að færa okkur út úr streitunni, hraðanum og óþolinu sem þjóðlíf okkar einkennist af í vaxandi mæli. Mér þótt því vænt um ekkifréttatíma gærdagsins og mín vegna hefði vel mátt fella alla fréttatímana niður.
Það er reynsla fréttamanna að annar í jólum, páskum og hvítasunnu geta oft orðið erfiðustu vinnudagarnir vegna fréttaleysis. Svo virðist hins vegar sem dagurinn í dag sé ekki fréttalaus og því miður er fréttin af hrundu brúnni í Nepal ekki góð frétt. Það er engu að treysta þegar fréttir eru annars vegar.
Frétt sem sýnist verða fyrsta frétt að morgni getur orðið að þeirri síðustu um kvöldið eða jafnvel verið sleppt. Alvarlegar og stórar fréttir geta gerst á jóladag og páskadag, alveg eins og aðra daga og því er og verður það útilokað að sleppa fréttatímum nokkurn dag ársins.
En mikið finnst mér það gott þegar engar fréttir gerast á helstu hátíðisdögum ársins. Það gæti jafnvel orðið frétt í sjálfu sér að hafa bara þá einu frétt í fréttatímanum að aldrei þessu vant sé ekkert í fréttum. Það væri hægt að "selja" þá frétt með því að slíkt hafi aldrei gerst áður og sé því frétt, nyhed.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)