27.12.2007 | 10:12
"ÞAÐ ERU BARA STELPUR SEM..."
Eitt af barnabörnum mínum á unglingsaldri sá feðga í búð þar sem brúðuleikhús var á boðstólum. "Mig langar í svona" sagði ungi drengurinn." "Nei, það eru bara stelpur sem fá svona" svaraði faðirinn. Málið afgreitt. Ein dótturdóttir mín hefur haft mikinn áhuga á bílum frá því að hún var smástelpa. Ég hef lánað henni stórar bílabækur í stað þess að segja við hana: "Það eru bara strákar sem hafa áhuga á bílum."
Konur hönnuðu að mestu aðra kynslóð Opel Corsa bílanna og það mun hafa verið kona framkvæmdastjóra Fiat-verksmiðjanna sem átti hugmyndina að nýjum Fiat 500 og fékk sínu framgengt, en þessi bíll hefur algerlega slegið í gegn.
Brúðuleikhúsið sem ungi drengurinn heillaðist af var ekki það sama og dúkkur eða dúkkulísur. Hugsanlega blunda í drengnum hæfileikar til leikhúsvinnu eða teiknimyndagerðar sem hefðu átt skilið að fá að þroskast. Og jafnvel þótt hann hefði sýnt áhuga á dúkkum eða dúkkulísum hefði það ekki verið til góðs að berja þann áhuga niður með harðri hendi.
Hugmyndir fólks um kynjahlutverk mega ekki standa í vegi fyrir því að hver persóna fái að þroska hæfileika sína. Þegar fólk sem berst fyrir jafnrétti vill þvinga öll börn til þess að vera eins er baráttan komin út á hálan ís að mínum dómi, ekki síst vegna þess að ekki veitir af að berjast af öllu afli gegn þeirri mismunun í launamálum sem enn viðgengst og byggist að miklu leyti á því að umönnunarstörf eru vanmetin.
Það verður ekki hægt að breyta því að það verði áfram mismunur á áhugamálum og hegðun drengja og stúlkna og það getur varla verið neinum til góðs að lemja niður áskapaðar hneigðir, hvort sem þær eru í samræmi við staðalímyndir eða ekki.
"Bragð er að þá barnið finnur" segir máltækið. Barnabarn mitt sagði móður sinni frá feðgunum og velti greinilega mikið fyrir sér orðaskiptum þeirra. Ný kynslóð er að vaxa upp sem nálgast þessi mál fyrr og með opnari huga en áður hefur tíðkast. Það gefur von um meiri sanngirni, skilning, víðsýni og réttlæti í þessum málum í framtíðinni.
Í Afríku kom ég í þorp þar sem karlarnir flatmöguðu í stærsta strákofanum með vopnum sínum og voru viðbúnir að grípa til vopnanna ef sams konar karlar úr næsta ættbálki kæmu með ófriði. Annað hlutverk höfðu þessir karlar ekki en að móka þarna daginn út og daginn inn, en konur og unglingar sáu um allt stritið sem fátækt þriðja heimsins útheimtir til að fólk komist af.
Ég spurði íslensku trúboðana hvers vegna þeir gerðu ekki gangskör í að uppræta þetta hróplega misrétti með valdi.
Þeir svöruðu því til að það væri ekki framkvæmanlegt heldur tæki það ein til tvenn kynslóðaskipti. Reynslan hefði sýnt að eina leiðin til úrbóta væri að mennta uppvaxandi kynslóð svo að hún lærði þær undirstöður nútíma samfélags sem væru forsenda fyrir framförum og breytti þessu þegar hennar tími kæmi.
Þetta hljómar ekki bjartsýnislega og ætti að vera fljótlegra að bæta þjóðfélag okkar en hið afríska. En líklega er samt mikið til í íslenska máltækinu að það sé erfitt að kenna gömlum hundi að sitja.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)