ÞAÐ BESTA SEM VIÐ GETUM GERT.

Í Kína erum við Íslendingar að fikra okkur inn á braut þess besta, sem við getum gert fyrir mannkynið, - að nýta þekkingu okkar og reynslu til að hjálpa öðrum þjóðum við að nýta ódýra og hreina orku þannig að báðír aðilar hafi hagnað af. Það er eðlilegt að það taki tíma að finna út hvaða fyrirkomulag er best að nota, að hve miklu leyti það eigi að vera á vegum einkafyrirtækja eða opinberra fyrirtækja.

Í einstaka tilfellum mætti hugsa sér svona framkvæmdir sem hluta af þróunaraðstoð okkar og verkaskiptingu þjóða í henni. Þá hjálpum við fátækari þjóðum á því sviði sem við erum bestir í en látum aðrar þjóðir um að hjálpa á þeim sviðum sem þær eru bestar í.

Gríðarlega orku þarf til húshitunar hjá þeim milljörðum fólks sem býr norðan og sunnan við hlýjustu löndin nálægt miðbaug. Þarf ekki annað en að líta snöggt á landakort til að sjá að t.d. í Tyrklandi er meðalhitinn í höfuðborginni Ankara lægri í janúar en hann er í Reykjavík.

Hundruð milljóna fólks býr í fjallahéruðum nálægt miðbaug sem þarf á húshitun að halda. Mér eru  minnisstæðar flugferðir í lítilli flugvél yfir stóran hluta Eþíópíu þar sem reykir stigu upp frá þúsundum strákofa í fjallahéruðunum svo að minnti á ljóðlínurnar "...þá var veisla hjá innfæddra eldi..." En eftir að hafa farið um fjallahéruðin á landi vissi ég að eldurinn logaði ekki aðeins til að sjóða mat heldur frekar til að hita upp hýbýlin.

Við útrás hinnar dýrmætu þekkingar okkar á þessu sviði þarf að finna bestu formúluna fyrir einkarekstur og opinberan rekstur. Eðlilegt er að opinber fyrirtæki og þar með landsmenn fái að njóta verðmætanna sem liggja í þekkingunni og reynslunni í þessum fyrirtækjum án þess að farið sé út í óþarflega mikinn áhætturekstur. Það má ekki loka þessi verðmæti inni heldur leyfa þeim að njóta sín. 

Á hinn bóginn sýnir útrás fjármálafyrirtækjanna að þörf er á því frumkvæði, frumleika og krafti sem einkareksturinn getur búið yfir þegar um áhættusamar fjárfestingar og ný verkefni er að ræða. 

Ríkisbankarnir okkar gömlu hefðu aldrei farið út í þá útrás og fært þá björg í bú hér sem einkareknu fjármálafyrirtækin hafa gert nú. Það hefði heldur ekki verið verjandi að nota ríkisábyrgðir til að taka þá áhættu sem slíkt krafðist. Ástæðurnar voru tvær: Annars vegar gagnvart þjóðinni sem eiganda bankanna. Og hins vegar vegna þess að hér á landi er viðburður að þeir sem fyrir slíku standa þurfi að bera ábyrgð á gjörðum sínum. Það slævir áhættumat þeirra og þá tilfinningu sem þeir verða að hafa fyrir því að standa sig því að ella tapi þeir sjálfir öllu.  

Verkaskipting opinbers rekstrar og einkarekstrar er eilífðarverkefni og álita- og átakaefni í stjórnmálum. Við megum ekki láta hugfallast þótt misjafnlega gangi í þeim efnum. Heimurinn þarf í meira mæli en nokkru sinni fyrr á því að halda sem við getum best gert.  


mbl.is Mikil áhrif hitaveitu í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. desember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband