29.12.2007 | 20:31
ÓVÆNTUR VANDI VIÐ JÓLATRÉÐ.
Í fjölskyldu okkar hjóna er orðinn fastur siður að við og afkomendur okkar njótum heimboðs Jónínu, elsta barns okkar og Óskars Olgeirssonar manns hennar á annan dag jóla. Fastur liður hefur verið að ganga í kringum jólatréð og hefur oftast verið notuð jólalagasyrpa af einum Gáttaþefsdiska minna en líka einstaka sinnum svipuð syrpa af diski Hemma Gunn og Dengsa. Í þetta sinn fannst Gáttaþefsdiskurinn ekki strax og var því spiluð syrpan af diski Hemma.
Allt gekk vel um hríð en skyndilega kom upp vandamál þegar lagið "Tíu litlir negrastrákar" hljómaði skyndilega. Aldrei fyrr höfðum við verið neitt verið að velta vöngum yfir þessu lagi og textanum sem allir kunnu og þaðan af síður vissum við í öll þessi ár um vafasaman bakgrunn upphaflegrar notkunar hans erlendis.
Skyndilega var komin upp knýjandi spurning: Var við hæfi að við gerðum það sama og við höfðum gert í sakleysi okkar í áratugi, sem sé að syngja þennan texta og það við jólatréð á hátíð friðar og kærleika? Er kannski ástæða til að láta ekki nægja að gera nýútkomna bók með myndum Muggs útlæga heldur líka gömlu skemmtilegu jólaplötuna þeirra Hemma og Dengsa?
Hvað átti að gera? Lagið var byrjað að hljóma og áttum við að stöðva börnin og byrja síðan að útskýra vandræðalega af hverju við gerðum það? Börnin tóku reyndar ákvörðunina fyrir okkur og byrjuðu sjálf, sakleysið uppmálað. Lagið hljómaði til enda og í lok göngunnar var eins og ekkert hefði gerst umfram það sem gerst hafði í áratugi við þetta jólatré.
Við gengum sem sé í kringum jólatréð nákvæmlega eins og alltaf hafði verið gert án þess að nokkurt barna okkar né barnabarana virtust hafa beðið skaða af.
Nú höfum við heilt ár til að velta fyrir okkur hvað við gerum næst. Einfaldast er að spila hér eftir bara syrpuna af Gáttaþefsdiskinum og finna hann í tíma. Það er víst runnið upp annað ástand í þjóðlífi okkar en við áttum von á að við verðum að laga okkur að því.
En ég spyr sjálfan mig: Er þetta nú samt drengilegt gagnvart mínum nánu vinum, Hemma og Dengsa? Hvers eiga þeir að gjalda? Hvernig áttu þeir að geta séð fyrir að þetta meinleysilega lag yrði svona umdeilt?
Gaman væri að heyra hvað fólk myndi gera í okkar sporum. Góð ráð eru alltaf vel þegin, þótt þau kunni að vera misvísandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
29.12.2007 | 15:33
"SKAGFIRSK MENNING, MÆT OG FÖGUR..."
Við hjónin, Helga og ég, skruppum í gærkvöldi í Árgarð í Skagafirði til að taka boði Karlakórsins Heimis um að samfagna þeim vegna 80 ára afmælis kórsins. Þetta var samkoma eins og þær gerast bestar út á landsbyggðinnni, með söng og lífsgleði. Karlakórinn æfir nú dagskrá í tilefni af því að öld er liðin frá fæðingu Stefáns Íslandi. Ég er orðinn nógu gamall til að muna þá tíð þegar nöfn framúrskarandi Íslendinga vörpuðu ljóma á landið sem hafði nýlega orðið lýðveldi og þjóðin þarfnaðist þess að sanna sig fyrir umheiminum.
Stefán Íslandi, María Markan, Halldór Laxness, Gunnar Gunnarsson, Vilhjálmur Stefánsson, Albert Guðmundsson, Gunnar Huseby, Torfi Bryngeirsson, Clausensbræður, Vilhjálmur Einarsson, - allt eru þetta nöfn afreksfólks, hvers á sínu sviði, sem lögðu ómetanlegan skerf til þess að Íslandi væri tekið sem jafningja í hópi annarra þjóða.
Fyrir 12 árum orti Pálmi Stefánsson bóndi þessa hringhendu:
Ýmsir nenna að yrkja bögur.
Aldnir kenna fræðin ströng.
Skagfirsk menning, mæt og fögur,
mótast enn af gleði og söng.
Ég kynntist þessari menningu þegar ég var fimm sumur í sveit í Langadal, en þar hafði karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps verið stofnaður í byrjun síðustu aldar og söngmenning Skagfirðinga og þeirra byggða Austur-Húnavatnssýslu, sem áttu upprekstrarland sem tengdist upprekstrarlandi Skagfirðinga, var samofin og tengd á marga vegu, ekki hvað síst þegar smalað var á haustin.
Úr jarðvegi þessarar söngmenningar var Stefán Íslandi sprottinn og á okkar dögum held ég að okkur sé þarft að huga að varðveislu hennar og endurnýjun. Stefán söng jöfnum höndum óperutónlist í óperuhúsum erlendis og íslenska tónlist hér heima og víðar.
Heimsþekkt er kóramenning kennd við kósakkana og í ríkjum sunnanverðrar Afríku ríkir einnig heimsfræg kóramenning sem við hjónin höfum verið svo lánsöm að kynnast.
Eftirminnilegur var þessi afríski söngur sem hluti af myndinni um uppreisnarmanninn Biko svo að dæmi sé tekið um það hve mikilvæg sérstæð menning, sprottinn úr landslagi og þjóðlífi, getur verið fyrir hverja þjóð og fyrir listsköpun af ýmsu tagi.
Það er misskilningur að unga fólkið í þéttbýlinu á suðvesturhorninu mun ekki geta metið þessa grónu, íslensku menningu. Sjálfur þekki ég það af reynslu hvernig ein Kerlingarfjallaferð gat gerbreytt tónlistarmati þriggja dætra minna á táningsaldri á sinni tíð, sem fyrir þá vist í Kerlingarfjöllum virtust aðeins kunna að meta tónlist Duran Duran eins og tíska var á mölinni meðal jafnaldra þeirra.
Umhverfið, söngurinn og lífið í Kerlingarfjöllum víkkaði sjóndeildarhring þeirra.
Skagfirsk menning er meira en söngurinn. Með þekktasta heimkynni íslenska hestsins leggja Skagfirðingarog bændur um allt land grunninn að skilningi á gildi umhverfisins í mótun menningar . Þúsundir ungs fólks um allt land kynnist íslenska hestinum og í gegnum hann fær þetta fólk tækifæri til að fara um landið á hestum, koma á hestamót og samlagast og kynnast því sem Pálmi Stefánsson lýsir með orðunum "Skagfirsk menning, mæt og fögur..."
Sú menning er auðvitað ekkert einkamál Skagfirðinga heldur sú hin sama og viðhaldið er úti á landsbyggðinni af reisn og trúmennsku sem allir Íslendingar ættu að tileinka sér jafnframt því sem leitað er fanga í því besta sem alþjóðleg menning getur fært okkur.
Ef tengslin rofna milli þeirra sérstæðru og grónu menningar, sem ég fjalla hér um, og alþjóðlegra strauma og aðeins situr eftir aðflutt menning, verður illa komið fyrir íslenskri þjóð, sjálfsímynd hennar og hlutverki í menningarlífi heimsins. Vonandi gerist það aldrei.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)