3.12.2007 | 14:02
EYMDIN OG MANNAUÐURINN.
Fréttin um ránið í Maputo minnir mig á svipað atvik fyrir þremur árum í þessari borg. Við hjónin, Helga og ég, ókum bílaleigubíl eftir götu í borginni og mér varð á að taka beygju ekki rétt. Var þá umsvifalaust stöðvaður af vopnuðum lögregluþjóni sem stökk fram og krafði okkur um fáránlega háa sekt á staðnum. "Aurinn eins og skot!" eins og segir í texta Stuðmanna um Svarta Pétur. Þessi "lögregluþjónn" gerði okkur það fullljóst með heimtuhörku sinni að ekki væri um það að ræða að fara með honum á lögreglustöð heldur yrðum við að greiða sektina á staðnum.
Mér óaði við að teygja málið því að þá átti ég á hættu að hann neyddi mig til að fara eitthvað annað svo að ég borgaði strax og hann sleppti okkur í kjölfarið.
Þegar ég færði þetta í tal við Íslendingana á staðnum sögðu þeir að við hefðum gert hárrétt. Mótþrói hefði getað haft alvarlegar afleiðingar fyrir okkur því að vafalaust hefði verið um glæpamann að ræða sem ætti lögregluþjónsbúning. Í borgum eins og þessari yrði að hlýða umyrðalaust við svona uppákomur, hvort sem um væri að ræða raunverulega eða falska lögreglumenn.
Í gær orðaði ég það við Helgu hvernig henni litist á að fara til Sikileyjar í sambandi við gerð kvikmyndar um hugsanlegar innrás Þjóðverja í Ísland í seini heimsstyrjöldinni og áhrif hennar á aðrar vígstöðvar, til dæmis innrásina á Sikiley. Henni leist ekki vel á þann ferðamáta okkar að vera ein á ferð í bílaleigubíl á yfirráðasvæði Mafíunnar og lái ég henni það ekki eftir atvikið í Maputo.
Í Maputo sáum við við fyrir tilviljun sláandi vitni um andstæður eymdar og mannauðs í heimsókn okkar í athvarf fyrir götubörn i illræmdasta fátækrahverfi borgarinnar þar sem dánartíðni unglinga er hræðilega há vegna alnæmis og annarra sjúkdóma.
Á leið frá athvarfinu komum við að götuhorni þar sem unglingur var að leika sér með fótbolta. Hann skrúfaði boltann upp af tánum og upp fyrir höfuð sér og gerði kúnstir af ýmsu tagi sem ég hef engan annan séð gera. Mér tókst að ná smá parti af þessari snilli á kvikmynd og síðan ókum við burt.
Útilokað er að vita hvar þessi götudrengur er nú niður kominn. Kannski er hann látinn úr alnæmi, hver veit það?
En þetta vakti mig til umhugsunar um þá sóun mannauðs sem eymd og fátækt landa þriðja heimsins hefur í för með sér.
Mér varð hugsað til þess að tæpri hálfri öld fyrr átti frægur knattspyrnuþjálfari leið um þetta hverfi og sá svona götudreng framkvæma kúnstir með boltann. Hann sá hæfileikana í drengnum og gekkst fyrir því að hann kæmist til Portúgals og nyti þar snilli sinnar.
Drengurinn hét Eusebio og varð leikmaður HM og alheimsstjarna í London 1966.
Af því að réttur maður sá hann á réttum tíma á götunni í Maputo varð hann heimsfrægur. Ef bara það hefði verið nú verið réttur maður á réttum tíma sem sá svipaðan dreng á sömu slóðum 2004, - frægur knattspyrnuþjálfari en ekki sjónvarpsmaður frá Íslandi.
Þetta minnir einnig á það þegar frægur hnefaleikaþjálfari sá út úr strætisvagni í fátækrahverfi í Bretlandi smávaxinn dreng verjast mörgum stærri drengjum sem sóttu að honum. Þjálfarinn fór út úr vagninum á næstu stöð og leitað drenginn uppi. Hann varð heimsfrægur og vellauðugur maður eftir einstakan hnefaleikaferil, Prins Naseem-Hamed.
Hvílík sóun á mannauði eru ekki milljarðar fátækra í heiminum sem fá ekki tækifæri til að verða ljós jarðar.
![]() |
Ráðist á íslenska stúlku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.12.2007 | 12:12
SEINT Í RASSINN GRIPIÐ.
Það er góðra gjalda vert að vaxandi skilningur sé á hinum ýmsu hliðum umhverfismála og náttúruverndarmála. Vonandi gefur hin almenni vilji til þess að stóriðja greiði fyrir losun gróðurhúsalofttegunda vísbendingu um að skilningur á fleiri atriðum og staðreyndum umhverfismála muni vaxa nógu hratt til að halda í við hraðferðina sem stóriðjulestin virðist enn á ef marka má öll þau virkjanaáform sem enn eru uppi á borðinu.
Að sjálfsögðu hefði verið best ef hægt hefði verið að koma því svo fyrir strax eftir Kyoto-bókunina að álverin greiddu á einhvern hátt fyrir losunarheimildir sínar þótt það hefði ekki verið á beinan hátt.
Því miður gengur enn of hægt að breyta þeim hugsunarhætti sem áratuga einhliða síbylja um dásemdir hins orkufreka iðnaðar hefur innleitt hjá svo mörgum. Betur má ef duga skal.
Sem dæmi um það má nefna það að Hallur Magnússon telur í bloggpistil sínum í dag að álverin hér á landi noti "endurnýjanlega og hreina orku." Hann er ekki sá fyrsti sem lepur þessa alhæfingu gagnrýnislaust upp.
Það er rétt að margar íslenskar virkjanir geta talist endurnýjanlegar og áletrun í Ljósafossvirkjun þess efnis að Sogsvirkjanirnar séu eilífðarvélar getur alveg staðist.
Enga slíka áletrun er að sjá í Kárahnjúkavirkjun enda stæðist hún ekki. Sú virkjun hefur í för með sér að 25 km langur dalur verður fylltur upp af aurseti og að því loknu verður virkjunin ónothæf meirihlutann af ári hverju vegna vatnsleysis og afkomendur okkar fá þá það verkefni að útvega orku annars staðar frá.
Spurning er líka hve "hrein" sú virkjun er sem hefur þar að auki í för með sér nýja sandstorma úr lónstæðinu þegar það er að mestu leyti þurrar leirur snemmsumars.
Búrfellsvirkjun og virkjanirnar fyrir ofan hana geta talist endurnýjanlegar að miklu leyti en þó ekki öllu. Þannig er til dæmis þegar farið að sjást hvernig Sultartangalón fyllist hratt upp af auri.
Hitaveitur til húshitunar eru endurnýjanlegar, hreinar og með góða varmanýtingu þegar ekki er gengið of nærri afkastagetu virkjunarsvæðanna til frambúðar.
Nýjustu virkjanirnar á Hellisheiði eru það hins vegar ekki ef litið er ca 40 ár fram í tímann. Kreista á 600 megavött út úr svæðinu í stað þess að láta helminginn nægja svo að orkan endist til frambúðar. Eftir ca 40 ár verður orkan uppurin og þá mun það koma í hlut barnabarna okkar að útvega 600 megavatta orku annars staðar frá.
Hvað myndum við segja um þá Ólaf Thors, Bjarna Ben, Emil Jónsson og Gylfa Þ. ef þeir hefðu gert svipað fyrir 40 árum og við sypum af því seyðið í dag?
Frá Hellisheiðarvirkjununum mum streyma margfalt meira af brennsteinsvetni út í loftið en frá öllum álverum landsins til samans og lyktarmengun í Reykjavík fer þegar 40 daga á ári fram úr hámarki þess sem leyft er í Kaliforníu.
Nýtingin er léleg, aðeins 12 prósent af beislaðri orku nýtist en 88 prósent fer ónýtt út í loftið.
Við eigum að kafa dýpra ofan í hlutina og hampa þeim virkjunum sem sannanlega mun standast kröfur um "hreina og endurnýjanlega orku" en nefna hinar réttu nafni eða að minnsta kosti með réttum fyrirvara. Annars stundum við laumuspil og lygar og það er ekki gott fyrir þjóð sem vill vera í fararbroddi á umhverfis- og upplýsingaöld.
Það er hart að þurfa að vera að margblogga um ofangreindar staðreyndir og virðist vera eins og klappa í vegg því alhæfingarsíbyljan um hina "hreinu og endurnýjanlegu orku" heldur stanslaust áfram.
En rétt skal vera rétt og alhæfing Halls Magnússsonar sýnir hve langt er í land með að fólk geri sér grein fyrir hlutunum eins og þeir eru í raun og sann.
![]() |
95% telja að stóriðja eigi að greiða fyrir mengun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)