4.12.2007 | 23:01
ORÐUM ÞURFA AÐ FYLGJA EFNDIR.
"Orð eru til alls fyrst" segir máltækið og það er góðra gjalda vert að ríkisstjórnin hafi sett okkur takmörk. En það þarf efndir og þess vegna er málið ónýtt meðan ekki er gripið til aðgerða. Hvað bílaflotann snertir má nefna eftirfarandi og er því raðað í röð með tilliti til þess hvað virkar fljótast og einfaldast.
1. Lækka þarf verð á dísilolíu miðað við bensín vegna þess að dísilbílar eru mun ódýrari og fljótlegri lausn til að minnka eldsneytiseyðlu og útblástur en t. d. tvinnbílar.
2. Setja þarf lengdargjald á bíla til að smækka bílaflotann og minnka eyðslu og útblástur en jafnframt því losnar ótrúlega mikið og dýrt rými í samgöngukerfinu. Að fjðlga sem mest styttri bíluml liðkar fyrir umferð og gerir hana skilvirkari, eyðsluminni og ódýrari. Auk þess getur það sparað vegaframkvæmdir.
3. Leggja af tollfríðindi á pallbíla.
4. Frítt í strætó, efling almenningssamgangna.
5. Stuðla að meiri notkun etanólbíla, methanbíla og rafbíla.
6. Hraða uppsetningu kerfa fyrir vetnisbíla, rafbíla og etanól og metanbíla.
En fyrst og fremst þarf breytt hugarfar og ég hygg að ég finni andrúmsloftið betur en flestir aðrir á viðbrögðum fólks við bílunum sem ég ek að jafnaði. Það er litið á mann sem sérvitring eða hálfgerðan asna fyrir það hve litlir og ódýrir þeir eru. Á meðan svo er og stóru, dýrum og eyðslufreku bílunum hampað á alla lund gerist ekki neitt, fyrr en kannski svo seint að miklu verra verður fyrir þjóðina að fást við þessi úrlausnarefni þá.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
4.12.2007 | 22:21
"RÚSSNESK KOSNING" AFTURGENGIN.
Ég átti erfitt með að trúa eigin eyrum að heyra í tíufréttunum í kvöld að yfir 99% kosningaþátttaka hefði verið í Tsjetsjeníu og Pútín með 99% atkvæða. Getur það virkilega verið að rússneskum ráðamönnum þyki slík þátttaka vera góð auglýsing fyrir lýðræðið þar eystra. Ég vona tvennt í þessu sambandi. Annað hvort að þessar tölur séu ekki réttar eða að þetta tákn ekki það að Pútín telji það sér til tekna að fá sams konar tölur upp úr kössunum og Stalín, Krústjof og Brésef fengu á sínum tíma.
![]() |
Kosningarnar í Rússlandi stóðust ekki alþjóðlegar kröfur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2007 | 00:18
TRÖLLIÐ STAL JÓLUNUM, - FINNAR HIRTU JÓLASVEININN.
Blogg Marínós G. Njálssonar um Rovaniemi kveikir í mér. Eftir tvær ferðir um Lappland allt frá syðstu mörkum þess í Svíþjóð um Finnland og til Alta í Noregi sáum við hjónin, Helga og ég, hvílíkir aular við Íslendingar höfum verið að átta okkur ekki á verðmætunum sem land okkar býr yfir. Fleiri ferðamenn koma nú til Lapplands á veturna en allt árið til Íslands og um það gerði ég sjónvarpspistil fyrir þremur árum. Þarna eru seld ferns konar verðmæti: 1. Kuldi. 2. Myrkur. 3. Þögn. 4. Ósnortin náttúra. Allt eru þetta atriði sem við Íslendingar höfum talið dragbíta á okkar möguleika.
Í Rovaniemi er mikill ferðamannastraumur á þessum árstíma vegna þess að með markvissri markaðssetningu hafa Finnar auglýst þennan höfuðstað Lapplands upp sem heimkynni jólasveinsins. Einnig eru þeir með frábærar vélsleðaferðir og norðar í Lapplandi eru fjölsóttir skíðastaðir í fjöllum, sem við Íslendingar myndum kalla hóla.
Fyrstu áratugina eftir stríð steymdu bréf til Íslands frá evrópskum börnum, einkum breskum, með utanáskriftinni: "Jólasveinninn, Íslandi. Þetta var talin hin mesta plága og skapaði vandæði hjá póstinum. Reynt var að svara einhverju af þessum bréfum en allir önduðu léttara þegar álagið minnkaði við það að smám saman hættu börnin að skrifa þessi bréf.
Í stað þess að sjá verðmætin í þessu létum við Finna hirða jólasveininn af okkur. Á jólunum er stundum sýnd myndin "þegar tröllið stal jólunum" en kannski mætti gera mynd sem héti "þegar Íslendingar stálu jólunum og jólasveininum frá sjálfum sér".
Nú segja einhverjir að gott sé að markaðshyggjan hafi ekki náð svo langt að laða útlendinga til landsins sem spilli hér friði. Þeir hinir sömu ættu að íhuga hvort við séum ekki fyrir löngu búin sjálf að spilla þessum friði með streitu og örtröð desembermánaðar.
Við heimskautsbaug rétt norðan við Rovaniemi hafa Finnar reist heimkynni jólasveinsins, hugvitssamlegt mannvirki hliðstætt Disneyland þótt ekki sé það eins stórt.
Í Jukkasjaarvi er frægasta íshótelið, annað við Kemi við botn Kirjálabotns.
Lapparnir selja norðurljósin svo vel að "skýjaglópurinn" Einar Ben hefði roðnað við að sjá það.
Hér heima héldu þeir í Hveragerði fyrir nokkrum árum að hægt væri að reisa heimkynni jólasveinsins.
Það ævintýri rigndi niður.
Aðeins tveir staðir á Íslandi koma til greina að mínum dómi til að keppa við Lappland: Mývatnssveit eða Egilsstaðir. Af þessum tveimur eiga Egilsstaðir meiri möguleika vegna þess að þar er alþjóðaflugvöllur eins og í Roveaniemi, og uppi á Fljótsdalsheiði, aðeins fáa kílómetra frá flugvellinum er tryggt að finna þau atriði sem geta keppt við Finnana.
Í Finnlandi hafa þeir þetta: Snjó, hreindýr, frosin vötn, jólasvein.
Á Fljóstdalsheiði hafa Austfirðingar þetta: Snjó, hreindýr, frosin vötn, eldfjall (Snæfell) þrettán jólasveina, Grýlu, Leppalúða og öll tröllin. (Engin fjöll eru nálægt Rovaniemi)
En það er þýðingarlaust að tala um þetta hér. Við sjáum bara álver og í þau er óhætt að fjárfesta svo hundruðum milljarða skiptir jafnvel þótt arðurinn sé fyrir neðan lægstu arðsemismörk.
Við segjum að það sé allt of langt hingað frá Evrópu. Jæja, það er nú samt lengra frá Spáni, Portúgal, Frakklandi og Bretlandi til Rovaniemi en til Egilsstaða.
Við höldum að Spánverjar, Portúgalir, Ítalir, Frakkar og Bretar sækist eftir heiðríkju, hita og sól.
Við hjónin fórum um Írland fyrir 15 árum. Til vesturstrandarinnar flykktust Grikkir, Ítalir og Spánverjar til þess að upplifa kalda og hvassa vestanáttina sem bar saltkenndan úða yfir ströndina svo að allar hríslur voru lauflausar þeim megin sem sneri að Atlantshafinu. Þetta var markhópur Íranna, fólk sem var að deyja úr leiðindum yfir hita og sól og vildi upplifa eitthvað allt annað, stóð við ströndina og fannst það vera að fá allt Atlantshafið framan í sig.
Aldrei upplifað neitt slíkt, - algerlega ný lífsreynsla!
Hingað kom þekktur bandarískur ferðamálaprófessor fyrir sjö árum og sagði okkur að sá markhópur ferðamanna sem stækkaði mest í heiminum væri það fólk sem hefði að kjörorði: "Get your hands dirty and your feet wet." Ég tók viðtal við þessa konu og næstu ár á eftir urðu "survival" og "raunveruleikasjónvarp það vinsælasta.
Írar auglýsa stærsta fuglabjarg Evrópu og draga þangað ferðamenn. Þegar ég sagði við þá að á Vestfjörðum á Íslandi stæðu tvö af þremur langstærstu fuglabjörgum Evrópu sitt hvorum megin við vík eina, og hið þriðja af stærstu fuglabjörgunum væri sunnar á fjörðunum, sögðu þeir: "Já en Ísland er jú eyja."
"Er Írland þá ekki lengur eyja, eyjan græna?" spurði ég og fékk ekkert svar.
Finnar eiga saunaböð en enga hveri eða náttúrugerðar laugar til að leggjast í. Fyrir tíu árum kom hingað blaðamaður frá Sunday Times og var hér yfir jól og áramót. Hvað fannst honum merkilegast? Jú, það var skafrenningurinn! Þessi ótrúlegi skafrenningur!
Og síðan var það auðvitað hin almenna flugeldasýning, brennurnar og álfarnir á áramótunum.
Í fyrra var viðtal við erlenda ferðamenn í sjónvarpi og þeir spurðir hvort leiðinlegt veður og kuldi hefði ekki gert þeim lífið leitt. Spurningin virtist vekja þeim furðu. Þeir sögðust einmitt hafa komið hingað til að upplifa slíkt.
Þetta skiljum við Íslendingar ekki og þaðan af síður það að það þurfi umtalsvert fjármagn, hugvit og vinnu til að ná til þeirra markhópa sem Írar og Finnar hafa náð til. Jólasveinsgarðurinn við Rovaniemi kostaði peninga, svo og öll önnur ferðamannaaðstaða, hótel og markaðsherferðir. Samt er um að ræða margfalt minna fjármagn en hér er eytt í álver og virkjanir.
NIðurstaðan hér á Íslandi verður auðvitað áfram hin sama og hingað til: Lofum Írum að hirða af okkur ferðamenn frá Miðjarðarhafslöndum og Finnum að hirða af okkur jólasveininn, norðurljósin og náttúru sem engan veginn jafnast á við þá íslensku og nýta það sér til frægðar og fjár.
Finnar vita að til framtíðar vinnst hálfur sigur við það eitt að koma börnunum á bragðið. Þau eiga eftir að verða fullorðnir og vel stæðir ferðamenn. Japnanir unnu sigra sína á bandaríska bílamarkaðnum með því að selja fyrst fátækum háskólastúdentum smábíla og stækka bílana jafnóðum og þetta fólk óx upp og fór að hafa efni á dýrari, og stærri bílum.
1976 tók ég upp í bíl puttaferðalang, einn af svonefndum erlendum bakpokalýð sem rætt var um að við ættum að forðast að fá til landsins. Nú kemur þessi maður árlega með tugi nemenda sinna til Íslands.
Nei, annars, það er vonlaust að blogga í þessum stíl. Það verður að halda áfram að reisa hér álver og eyða í það hundruðum milljarða króna. Annars verður hér kreppa og atvinnuleysi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)