SÓL Á SUÐURLANDI, GRASRÓTIN SPRETTUR UPP!

Fundur Sólar á Suðurland og Náttúruverndarsamtaka Suðurlands í Árnesi gær fór fram úr björtustu vonum. Þegar ég hitti þetta frábæra heimafólk fyrst fyrir mánuði til skrafs og ráðagerða áttu við orð Jónasar: hnípin þjóð í vanda."

Í 40 ár hafa orkufyrirtæki farið sínu fram í krafti óréttlátra lagagreina um að þegar "brýn nauðsyn og almannaheill" krefðu gætu þau tekið það land eignarnámi sem þeim sýndist. Bændum hefur lærst í 40 ár að eina leiðin til að sleppa út úr viðskiptum við Landsvirkjun hefur verið að reyna með samningum að ná sem skástri lendingu um bætur fyrir eignaupptökuna.

Bændur og landeigendur hafa smám saman verið barðir til hlýðni og lært að vera "þægir."  Lögin hafa gefið Landsvirkjun sjálfdæmi um mat á orðunum "almannaheill" og "brýna nauðsyn." Þau hafa eingöngu verið túlkuð Landsvirkjun í hag en ekki þeim sem jafnvel hafa séð meiri verðmæti í því að nýta landið án þeirra umhverfisspjalla sem fylgir virkjunum.

Það blés því ekki byrlega á fyrstu undirbúningsfundunum því að baráttan framundan sýndist vonlítil. Það sýndist jafnvel óheyrileg bjartsýni að fylla 200 manna sal í Þingborg. En smám saman fór boltinn að rúlla og varð að skriðu sem tryggði metfjölda á samkomu í Árnesi þar sem meira en 400 manns komu saman til að grípa til vopna.

Fundurinn í dag var mikilvægur fyrir margra hluta sakir.

1. Hann afsannaði að það væru bara "fáeinir öfgamenn" sem andæfðu svona áformum.

2. Hann sýndi fram á óréttlæti þess að í einu sveitarfélagi geti íbúarnir ákveðið á lýðræðislegan hátt stórfelld náttúruspjöll í mörgum öðrum sveitarfélögumm. Með þessu er ekki verið að kasta rýrð á það prýðilega frumkvæði í Hafnarfirði að efna til kosninga um málið, heldur það hvernig að þessu er staðið í öðrum sveitarfélögum sem hlut eiga að máli.

3. Hann staðfesti enn og aftur að það er bylgja að rísa í þessum málum sem stjórnmálamenn þurfa að fara að taka tillit til, - ekki bara í orði heldur og á borði.  

4. Á þessum fundi voru veittar dýrmætar upplýsingar um eðli þess máls og umhverfismál almennt.

5. Nær allir þeir sem komu þarna fram voru heimamenn, - grasrót blómlegasta svæðis landsins er byrjuð að spretta upp! Í undirbúningi fundarins kom til dæmis í ljós að það var engin þurrð á sunnlenskum tónlistarmönnum til að koma þarna fram.

6. Hann varpaði ljósi á það að jafnvel þótt virkjanir í Neðri-Þjórsá hafi ekki verið ofarlega á forgangsröðunarlista náttúruverndarfólks vegna skorts samtakanna á fjármagni og mannskap eru fleiri og fleiri byrjaðir á sjá  samhengi stóriðju- og virkjanamálanna og komast að þeirri niðurstöðu að nú verður ekki lengur hopað heldur sagt á öllum vígstöðvum: hingað og ekki lengra!

Náttúruverndarsamtök Suðurlands og hin nýsprottnu samtök Sól á Suðurlandi hófu í dag á loft gunnfána þeirrar baráttu sem þar er framundan á eftirminnilegan hátt. Þökk fyrir það, hugrakka heiðursfólk!

 


Bloggfærslur 11. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband