12.2.2007 | 19:55
ÝKT "ANDLÁTSFRÉTT".
Í fréttum Stöðvar tvö í kvöld er sagt "samkvæmt heimildum"að ég muni hverfa af skjánum hjá Sjónvarpinu vegna þess að ég fari á biðlaun. Þessi frétt er ekki rétt og um hana hægt að segja eins og Mark Twain sagði sprelllifandi á sínum tíma að fréttir af andláti hans væru stórlega ýktar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.2.2007 | 13:29
FUNDIN ÞJÓÐARSÁTT FYRIR OKKUR ÖLL.
Heyri í útvarpsfréttum að tveir framsóknarráðherrar hafa fundið þjóðarsátt um virkjanamálin á grundvelli starfs svonefndrar auðlindanefndar með fulltrúum allra stjórnmálaflokka og annarra aðila sem málið snertir. Stórfrétt og góð tíðindi. Nú getur náttúruverndarfólk farið heim og lagt sig og stjórnmálabaráttan farið að snúast um allt annað en umhverfismál eins og verið hefur í síðustu kosningum.
Þetta eru enn betri tíðindi fyrir þá sök að náttúruverndarfólk þurfti ekkert að hafa fyrir þessu, því það átti enga aðild að sáttinni heldur lögðu ráðherrarnir það á sig að vinna allt málið upp í hendurnar á okkur.
Samtök ferðaþjónustunnar áttu víst heldur engan fulltrúa í nefndinni enda er þeirra hlutverk að finna leiðir til að láta erlenda ferðamenn skoða risaverksmiðjur, háspennulínur og stórvirkjanir.
Að sjálfsögðu áttu orkufyrirtækin fulltrúa í nefndinni enda eru það orkufyrirtækin sem meta það hvenær "brýn nauðsyn" og "almannaheill"eru í húfi þegar lönd eru tekin eignarnámi fyrir virkjanir.
Náttúruverndarfólk þarf ekki einu sinni að skrifa undir þessa sátt. Hugsa sér hvað þetta er einfalt þegar þetta er borið saman við þjóðarsáttina frægu 1990. Þá þurftu fulltrúar beggja deiluaðila, atvinnurekenda og launþega, að leggja sig alla fram vökunótt eftir vökunótt vikum saman til þess að ná þeirri frægu sátt.
Nú voru það aðeins fulltrúar orkufyritækjanna sem unnu þetta starf fyrir náttúruverndarfólkið sem aðilar að málinu. Þetta minnir á Sovétríkin sálugu þar sem fulltrúar fólksins í kommúnistaflokknum unnu alla vinnuna við að ákveða kaup og kjör og ná þjóðarsátt um þau án þess að þurfa að dragnast með frjáls verkalýðsfélög í þeirri vinnu.
Ég bið spenntur eftir þjóðarsáttinni sem Jón og Jónína hafa unnið fyrir alla þjóðina. Raunar var ég nýlega á málþingi þar sem fram kom í máli vantrúaðra að þjóðarsáttin myndi fara að virka eftir að búið væri að virkja sem svaraði tveimur Kárahnjúkavirkjunum í viðbót svo að hægt væri koma á koppinn fyrstu áföngum þeirra álvera sem eru á teikniborðinu.
En þessar virkjanir og álverin eru náttúrulega smámunir miðað við svona stórkostlega sátt. Í henni hlýtur að felast að öll nýju Sólarsamtökin auk þeirra umhverfissamtaka sem fyrir voru geta nú lagt sjálf sig niður. Það er engin þörf fyrir þau, - ráðherrarnir sjá um sáttina sem þjóðina þyrstir í, - baráttan fyrrgreindra samtaka reynist vera óþörf hér eftir. Hvílík dýrð! Hvílík dásemd!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)