13.2.2007 | 00:38
HALDIÐ OPNU FYRIR HÚSAVÍK OG VÍÐAR?
Þrjú álver á næsta áratug segir Geir Haarde í Silfri Egils, nýbúinn að hvetja til stækkaðs álvers í Straumsvík. Framtíðarsýn forsætisráðherra: Fjögur álver sem nota munu alla nýtanlega orku Íslands.
Þjóðarsátt um málið sem byrjar að virka 2010 segir Jón Sigurðsson. Þangað til verður hægt að negla niður stóriðju sem þarf orku á við tvær Kárahnjúkavirkjanir. "Hófleg stóriðja með álverum" segir formaður Frjálslynda flokksins.
"Stóriðju ber fráleitt að útiloka sem framleiðslukost" segir Össur Skarphéðinsson í Fréttablaðinu í gær og ítrekar að Samfylkingin vilji að stóriðju í Straumsvík og Helguvík verði "frestað" á næstu árum. Össur og Ingibjörg setja fram skilyrði um að fyrst verði gerð rammaáætlun um náttúruvernd. Sigríður Anna Þórðardóttir vill "hægja á" stóriðjuáformum meðan orkuverð sé að hækka.
Hvað lesum við út úr þessum yfirlýsingum fulltrúa fjögurra flokka? Samfylkingin minnist ekki á Húsavík, - bara suðvesturhornið. Geir segir: Strax í Straumsvík og nefnir síðan árið 2015. Langt þangað til? Nei, aðeins átta ár, jafnlangur tími og er nú liðinn frá Eyjabakkadeilunni.
Lítið mál fyrir Samfylkinguna að snara út einni rammaáætlun um náttúrvernd og byrja svo eftir fárra ára"frestun" á þeirri stóriðju sem "fráleitt er að útiloka sem framleiðslukost."
Samkvæmt áætlunum um djúpboranir gætu liðið allt að 15 ár þangað til árangur liggi fyrir. Það verður árið 2022. Fyrrnefndar yfirlýsingar eru nógu loðnar til þess að stóriðju- og virkjanframkvæmdir gætu byrjað á ný eftir nokkur ár þrátt fyrir fögur orð. Þá yrði jarðhitinn virkjaður með gamla laginu með fimmfalt meiri umhverfisröskun en hugsanlega verður hægt að fá með djúpborunum.
Álverið á Húsavík á að vísu ekki að vera nema 240 þúsund tonn en fulltrúar allra álfyritækjanna hafa lýst því yfir að álver verði að verða minnst 5-600 þúsund tonn. Það þýðir allt að milljón tonna framleiðslu Alcoa í einu kjördæmi sem myndi þurfa allar hugsanlegar virkjanir í kjördæminu, jökulárnar og virkjanasvæði norðaustan Mývatns sem orðið gæti eitt verðmætasta svæðið í stærsta og frægasta eldfjallaþjóðgarði heims.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn fær að ráða og marka má ummæli Geirs Haarde er virkjun í Jökulsá á Fjöllum ekki útilokuð. Það verður erfitt að standa á móti því þegar Alcoa setur fram úrslitakosti um fullar stækkanir álveranna á Norður- og Austurlandi, - annars fari þeir bara eins og Alcan hefur hótað Hafnfirðingum.
Merkilegt í þessu virkjanafíknarpartíi hvað margir eru tregir til þess að hætta alveg þangað til útséð verður með djúpboranirnar.
Allt í lagi að fá sér smá snafsa, - "hóflega stóriðju með álverum" eins og formaður Frjálslynda flokksins orðaði það á landsþinginu. Það er svona álíka og þegar alkinn segist bara ætla að drekka hóflega úr báðum vínflöskunum sem hann hefur með sér til að staupa sig í partíinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)