14.2.2007 | 10:54
NÆSTI VETTVANGUR - REYKJANESSKAGI
Fór á fund í Grindavík í gærkvöldi þar sem samþykkt var ályktun gegn því að leyft verði að leggja háspennulínur og reisa virkjanir um þveran og endilangan Reykjanesskaga. Það mun rýra stórlega möguleika á að setja á stofn eldfjallaþjóðgarð sem taki fram frægasta eldfjallaþjóðgarði heims á Hawai.
Það gleymist þegar rætt er um stækkun álvers í Straumsvík að hún hefur í för með sér stórfellda umhverfisröskun um allan Reykjanesskagann og við Þjórsá. Meira að segja er á teikniborðinu ný höfn við Óttarsstaðavör sunnan Straumsvíkur með tilheyrandi spjöllum á mjög sérstæðum slóðum þar sem stærsta ferskvatnsfljót skagans rennur neðanjarðar út í sjó (Straumsvík, Straumur).
Í gamla daga gátu fiskimenn rennt upp að landi og fengið sér ferskt vatn að drekka við ströndina án þess að fara í land. Um allan skagann stefnir nú í baráttu fyrir því að staldra við og sjá til hvort ekki verði með djúpborunum hægt að ná nægri orku á þeim svæðum sem þegar er búið að virkja á í stað þess að vaða áfram um allt. Ef menn telja það sáluhjálparatriði að raða risaverksmiðjum inn í anddyri Íslands.
Baráttan sem framundan er næsta mánuðinn afsannar þá fullyrðingu að umhverfisverndarfólk berjist bara gegn verksmiðjuvæðingunni úti á landsbyggðinni.
Það er kaldhæðni örlaganna að upphaf umhverfisbaráttu á Íslandi má rekja til þess að Sigurður Þórarinsson vildi fyrir tæpum 60 árum bjarga Grænavatni í Krýsuvík frá því að verða spjöllum að bráð. Nú er ætlunin að steypa borholum, virkjun og háspennulínum inn á þetta svæði og láta línurnar þvera fjöll og dali fyrir vestan Krýsuvík allt til Garðsskaga.
Mjög stór hluti Reykjanesskagans er í landi Grindavíkur og það var í því landi sem unnin voru ótrúlega mikil þarflaus umhverfisspjöll í vor við litfegursta gil suðurvesturlands, Sogin, rétt hjá Trölladyngju. Það var gert með því að saga stórt, kolsvart rannsóknarborplan inn í græna hlíð við mynni Soganna og ryðjast með veg upp eftir dásamlegri gönguleið meðfram Sogalæknum.
Auðvelt hefði verið að leggja þennan veg nokkur hundruð metrum vestar og skábora rannsóknarholuna til að komast hjá þessum miklu spjöllum. Þessi spjöll komu ekki einu sinni inn á borð hjá Skipulagsstofnun, hvað þá Umhverfisstofnun.
Mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar verður formsatriði eftir þessi spjöll. Þannig er unnið skipulega í áföngum að því að brytja niður ímynd Íslands sem eitt af undrum veraldar, óspjallað og hreint. Gegn þessari stefnu verður að stækka og breikka þann græna her sem heldur út í baráttuna í hlaðvarpa höfuðborgarsvæðisins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)