16.2.2007 | 12:50
ÆSKAN VEKUR VONIR
Fór í morgun að beiðni nemendafélagsins í MH til að sýna á svonefndum Lagningadögum myndir af Brennisteinsfjöllum og útskýra möguleika Íslands með tvo frægustu og bestu eldfjallaþjóðgarða heims, - þann stærsta suður af Húsavík og þann næst stærsta í hlaðvarpa höfuðborgarsvæðisins.
Fyrir fullum sal var dásamlegt að rökræða við þetta efnilega unga fólk um framtíð landsins og finna fyrir auknum áhuga þess á umhverfismálum og nýjum viðhorfum um stefnubreytingu, nýsköpun og betra þjóðfélag.
Unga fólkið skilur vel þá hugsun sem felst í því að stöðva stóriðju- og virkjanaframkvæmdirnar og nota næstu ár til að byggja upp breytt og betra þjóðfélag sem byggir á nýtingu einstæðrar náttúru landsins. Þetta æskufólk ætlar sjálft að leggja á sig minni tekjur næstu árin meðan það er að leggja grunn að betri framtíð sem tryggir þeim að lokum betri kjörum og nýtingu á hæfileikum þess.
Auðvelt var að útskýra fyrir æskufólkinu samsvörunina í námi þeirra við breytingu á stefnunni í umhverfismálunum en erfiðast varð útskýra fyrir þá tregðu sem lýsir sér í því hvernig hin gamla stefna liðinnar aldar er trúaratriði fyrir ráðamönnum þjóðarinnar.
Bloggar | Breytt 17.2.2007 kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)