17.2.2007 | 13:08
"NÁTTÚRUVERND HINNA SVÖRTU SANDA".
Í Blaðinu í dag segir Friðrik Sophusson að umhverfisverndarsamtök berjist fyrir "náttúruvernd hinna svörtu sanda" á sama tíma sem fyrirtæki hans er að sökkva stærsta gróðurlendi sem eytt hefur verið í einni framkvæmd í Íslandssögunni, alls 40 ferkílómetrum. Orwell hefði elskað þetta orðalag.
Í júní nk. mun þjóðin sjá 30 ferkílómetra af svörtum sandi á þurru í lónstæði Hálslóns sem Landsvirkjun hefur búið til þar sem áður var að mestu gróið land. Nær væri því að tala um "virkjanastefnu hinna eyddu gróðurlenda og tilbúnu sanda."
Fyrir tæpum tuttugu árum sökkti sama fyrirtæki næstum því eins stóru grónu svæði undir Blöndulón. Stór hluti lónstæða fyrirhugaðra virkjana í Neðri-Þjórsá verður ræktað eða gróið land. Barátta gegn virkjunum í Þjórsárverum hefur snúist um einstæða gróðurvin.
Einn þingmanna sagði á sínum tíma að verið væri að rífast um "nokkur nástrá". Virkjanamenn tala um að smávegis af "eyðimerkurgróðri verði sökkt". Staðreyndin er hins vegar sú að Hálsinn, sem Hálslón dregur nafn af, var 15 km löng bogadregin Fljótshlíð íslenska hálendisins með 2ja til 3ja metra þykkri gróðurþekju.
Þegar lægst er í Hálslóni snemmsumars munu kynslóðir framtíðarinnar berjast við sandfokið af þessum 30 ferkílómetrum sem Landsvirkjun breytti úr grónu landi í svartan sand.
"Umræðan um umhverfisvernd á villigötum" segir Friðrik í viðtalinu. Það eru orð að sönnu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
17.2.2007 | 00:56
SIGGI, BERÐU HÖFUÐIÐ HÁTT!
Ég sperrti eyrun þegar ég heyrði óvenju kraftmikla rödd hljóma í X-factor í kvöld. Ég er ekki að segja að hann væri eins og Tom Jones en það hringdu bjöllur í hausnum á mér. Mér fannst óskiljanlegt að þessi öflugi söngvari væri sendur heim.
Hann var sakaður um að syngja svipuð lög og hann hefði gert áður, - skorta fjölbreytni í lagavali. Come on, án þess að ég beri þá saman, þá held ég að ef Tom Jones hefði sungið fjögur lög í keppninni hefði líka mátt senda hann heim fyrir einhæft lagaval.
Siggi, þú eignaðist áreiðanlega fleiri aðdáendur en mig í kvöld. Berðu höfuðið hátt! Gerðu plötu með góðra manna hjálp og ég skal kaupa hana. Láttu ekki hrekja þig frá því að syngja lög sem henta þér og þinni óvenjulega kraftmiklu rödd. En meðal annarra orða: Hvar hefurðu verið í öll þessi ár?
Af hverju heyrði ég í þér fyrsta sinn í kvöld? Láttu það ekki verða í síðasta sinn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)