20.2.2007 | 00:20
MANNRÉTTINDI ÆSKU OG ELLI
Þessa dagana tek ég þátt í æfingum á söngleik um ástir og elli og vona að hann veki umhugsun um mannréttindi í okkar ríka þjóðfélagi miðað við mannréttindi hjá fátækum og "frumstæðum" þjóðum. Það datt út úr mér í Kryddsíld á gamlársdag að við hefðum tilhneigingu til að gera þrennt að afgangsstærðum: Æskuna, ellina og náttúruna og þetta hefur leitað meira á hugann við það að taka þátt í þessum söngleik.
Við vesturlandabúar fordæmum réttilega mannréttindaleysi kvenna í múslimaríkjum og fátækum ríkjum Asíu og Afríku. En hver eru mannréttindi æsku og elli í þessum ríkjum? Þetta bar á góma í samtali mínu við Ósk Vilhjálmsdóttur nýlega og þá benti hún mér á að hjá þessum þjóðum eru það talin grundvallamannrréttindi barna að dvelja undir forsjá foreldra og síðan réttur foreldranna þegar þeir eldast að hin uppkomnu börn þeirra sjái um þau.
Aðstoð kynslóðanna við hvora aðra eru gagnkvæm. Foreldrar annast börnin og síðan snýst þetta við. Í þessum löndum er það talin hin mesta hneisa ef þessi réttindi barna og gamalmenna eru ekki virt. Það væri ekki talin góð latína í þessum löndum að börnum og gamalmennum væri vísað að heiman og þeim hrúgað inn á stofnanir.
Ósk sagði mér frá rúmlega níræðum manni sem væri vel ern en að hann og ágætlega rólfærir jafnaldrar hans á elliheimilinu væru fyrir löngu búnir að klára öll umræðuefni frá fyrri tíð. Þeim leiddist lífið í þessu "verndaða" umhverfi þar sem ys og þys þjóðlífsins, ærsl og kæti ungviðisins, færi að mestu framhjá þeim.
Það minnir mig á lífið í sveitinni þegar ég var strákur. Allir á bænum tóku þátt í störfum og samveru hins daglega lífs. Úti á túni rökuðu og rifjuðu hey saman ungir og aldnir og blönduðu geði. Þetta samlíf tryggði það að alltaf væri eitthvað nýtt að gerast sem gerði hvern dag ólíkan öðrum hjá öllum aldurshópum. Þegar amma eða afi voru orðin léleg til útiverka sáu þau um hluta af uppeldi barnabarnanna á heimilinu.
Auðvitað lifir fólk lengur en áður og að því kemur að það getur ekki verið inni á venjulegu heimili vegna sjúkdóma og hrumleika. En sú spurning vaknar samt hvort okkar ríka og tæknivædda tölvuþjóðfélag eigi virkilega enga aðra lausn en þá sem myndi vera talin skömm hjá fátækustu þjóðum heims.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)