AÐ FÁ Í HNÉN ÚT AF ORKUMÁLUNUM

Við Íslendingar fáum í hnén þegar frægir útlendingar hrífast af frásögnum okkar af því hvernig við nýtum hreina og endurnýjanlega orkugjafa. Churchill, Reagan, Gorbashof, Bill Gates, Bill og Hillary Clinton! En ég held að víð ættum að gæta þess að fara ekki fram úr okkur þegar við sækjumst sem mest eftir skjalli hins ofboðslega fræga fólks.

Í fyrsta lagi segjum við þessu fólki til dæmis að orka Nesjavalla-Hengils-Hellisheiðar-svæðisins sé endurnýjanleg þegar hið rétta er að hún mun aðeins endast í 40 ár.

Í öðru lagi lítum við framhjá virkjun eins og Kárahnjúkavirkjun sem verður ónýt í fyllingu tímans gagnstætt til dæmis virkjununum við Sog sem eru eilífðarvélar. Að ekki sé minnst á óþarfa eyðileggingu svæðis sem er einstætt á heimsvísu. Við erum heldur ekkert að segja þeim frá áformum um virkjun flúðasiglinagfljóta Skagafjarðar þar sem Villinganesvirkjun verður ónýt á nokkrum áratugum.  

Í þriðja lagi gætum við eignast keppinauta. Norski kóngurinn gæti kynnt fyrir útlendingum metnaðarfulla áætlun Norðmanna um að virkja hið hreina og endurnýjanlega óvirkjaða vatnsafl landsins, sem að magni til er meira og hreinna en það vatnsafl sem er óvirkjað á Íslandi.

En hann mun láta það vera vegna þess að Norðmenn hafa ákveðið að virkja ekki þetta vatnsafl þrátt fyrir að orkuskortur berji þar að dyrum. Þeir ætla að varðveita sínar náttúruperlur en útsendarar Norsk Hydro fara hins vegar til Íslands svo að hægt verði að fá Íslendinga til að fórna miklu merkilegri náttúruperlum fyrir norska stóriðju.

Ríkisstjóri Wyoming-ríkis í Bandaríkjunum á líka möguleika á að fá í hnén þegar hann kynnir heimsfræga fólkinu áætlanir um að virkja hina gífurlega ónýttu hreinu og endurnýjanlegu jarðvarma- og vatnsorku Yellowstoneþjóðgarðsins.

En hann mun ekki gera þetta vegna þess að hann veit að á Íslandi eru menn tilbúnir til að fórna jafnvel meiri náttúruverðmætum svo að Bandaríkjamenn geti lagt niður álver sín í heimalandinu, smíðað ný á Íslandi og haldið sínum amerísku náttúrugersemum óspjölluðum.  

Bæði norski kóngurinn og bandaríski ríkisstjórinn vita líka að þótt þessi orka sem um ræðir kunni að sýnast mikil er hún langt innan við eitt prósent af orkuþörf heimsins. Að ráðast fyrst á þessar náttúrugersemar væri hliðstætt því að ef það væri þurrð á góðmálmum í veröldinni myndu menn bræða fyrst frægustu myndastyttur og hvofþök heims.


Bloggfærslur 21. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband