ÓTTI VIÐ HREYFINGU Á KJÓSENDUM

Allir þættir með forystumönnum stjórnmálaflokkanna á ljósvakamiðlum 1999 enduðu á því að umsjónarmenn sögðu: "Ætlunin var að fjalla um umhverfismál en tímans vegna verður það ekki hægt." 2003 var þetta lítið skárra en nú virðist von um að hægt verði að knýja fram löngu tímabærar umræður og kosningar um þetta.

Það er komin hreyfing inn í alla flokka út af umhverfismálunum enda hefur undanfarnar vikur vofað yfir að nýtt framboð grænna liti dagsins ljós.

Kristinn H. Gunnarsson, - einn af þeim sem samþykkti Kárahnjúkavirkjun ef ég man rétt, - les út úr orðum Steingríms J. Sigfússonar í Morgunblaðsviðtali undanslátt frá stefnu Vinstri Grænna í stóriðjumálum. Sleggjan kastar úr dálitlu glerhúsi, sýnist mér, - en kannski er Kristinn tilbúinn til að viðurkenna að Kárahnjúkavirkjun hafi verið mistök og að rétt sé að biðja um stóriðjuhlé, hver veit?

Guðjón Arnar Kristjánsson dró á dögunum í þingræðu í land frá þeim ummælum sínum á landsþingi Frjálslynda flokksins að stefna flokksins væri "hófleg stóriðja" með álverum. Frambjóðendur flokksins hafa tekið upp græna úðabrúsa til að úða á sig.

Raunar er samt svo að sjá hjá bæði frjálslyhndum og Samfylkingunni að haldið sé opnu fyrir álver á Húsavík.

Ótti við hreyfingu á kjósendum skín út úr viðleitni sumra Sjálfstæðismanna eins og Guðlaugs Þ. Þórðarsonar og Illuga Gunnarssonar til að byrja að setja græna slikju á bláa litinn sinn.

Svonefnd "lítil" ný framboð, jafnvel ófædd, geta haft áhrif. Dæmi: Þjóðvarnarflokkurinn fékk tvo þingmenn 1953 og 10,5 prósent í bæjarstjórnarkosningum 1954. Vinstri flokkarnir urðu hræddir og samþykktu í mars 1956 að senda herinn úr landi, - stjórnin féll í framhaldinu.

Þjóðvarnarflokkurinn missti bitið við þetta, það var búið að stela stefnunni frá honum og hann rann inn í Alþýðubandalagið áratug seinna.

Vinstri stjórnin heyktist samt á því að reka herinn og bar fyrir sig versnandi horfur í alþjóðamálum, innrásir í Ungverjaland og Egyptaland.

Klofhingsframboðið Samtök frjálslyndra og vinstri manna felldu viðreisnarstjórnina 1971 á landhelgismálinu. Landhelgin var færð út en Sjálfstæðismenn tóku síðan landhelgismálið upp á sína arma og færðu landhelgina enn meira út í þorskastríði númer tvö.

Lærdómur: 1. Lítil ný framboð geta haft áhrif. 2. Gömlu flokkarnir bregðast þá við með því að taka mál þeirra upp á sína arma, - if you can´t beat them, join them.  3. En gömlu flokkarnir sitja um tækifæri til að svíkjast undan merkjum ef mögulegt er.

Nú er spuringin: Hreyfist einhver í Framsóknarflokknum? Einu sinni hafði sá flokkur á sér grænan lit með Eystein Jónsson formann framarlega í sveit íslenskra umhverfisverndarmanna.

 


Bloggfærslur 25. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband