27.2.2007 | 13:58
ÍSLAND OF LÍTIÐ?
Mörgum finnst Ísland enn land hinnar miklu víðáttu og að af nóg sé að taka fyrir mannvirki hvers konar. Um miðbik síðustu aldar fannst bændum líka vera nær óendanlega mikið af íslensku votlendi og þjóðþrifaverk væri að ræsta mýrarnar fram. Þegar Nóbelsskáldið spáði því 1970 að sú tíð myndi koma að mokað yrði ofan í skurðina var hlegið að því sem tómu rugli.
Spásýn Laxness hefur samt ræst. Sú stund kom að menn sáu að votlendið íslenska hafði ekki verið eins stórt og það sýndist. Á Suðurlandi eru aðeins örfá prósent eftir af votlendinu og menn sjá nú að allt of langt var gengið.
Svipað kann að verða uppi á teningnum varðandi íslenska víðernið og hálendið. Það þarf ekki annað en líta á heimskort til að sjá að Ísland er lítið land, - ekki stórt. Ferðamenn á Íslandi eru með mjög mismunandi kröfur.
Sumir vilja heilsárvegi um landið þvert og endilangt. Sumir vilja fara í gönguferðir í kyrrð öræfanna. Dæmi um sambýli sem þurfti að setja reglur um er í Bláfjöllum þar sem verður á veturna að skipta útivistarfólki og úthluta leyfðum svæðum til umferðar eftir því hvort það er á skíðum eða vélsleðum. Búið er að friða Öræfajökul fyrir jeppaferðum.
Eftir því sem umferð ferðamanna með mjög ólíkar kröfur eykst eiga menn eftir að komast að því að óbyggðir Íslands eru ekki óendanlega stórar heldur mun koma í ljós að landið er of lítið fyrir allt það sem fólki dettur í hug að framkvæmda og gera.
Í eftirminnilegri ferð um Banff þjóðgarðinn í Kanada í leiðsögn forstöðumanns þjóðgarðsins lýsti hann vel mismunandi nýtingu og kröfum um hana. Þjóðgarðurinn skiptist í mismunandi svæði eftir eðli umferðar og mannvirkja. Efsta stig friðunar var á svæðum sem hann taldi síst of stór.
Þar sagði hann að væru til staðir þar sem aðeins 5 til 10 manns kæmu á ári. Samt væri gildi þeirra talið gríðarlegt en það væri ekki fólgið í gróða sem umferð ferðamanna skapaði heldur eingöngu í vitneskju manna um það að þeir væru til. Þetta getur verið til umhugsunar fyrir okkur hér á Íslandi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)