ATHYGLISVERÐ SKOÐANAKÖNNUN

 

Það er ekki einkamál eins sveitarfélags hvernig anddyri landsins, sem erlendir gestir koma fyrst í, lítur út. Raunar er það ekki einkamál Íslendinga hvernig við förum með þau náttúruverðmæti sem við varðveitum fyrir óborna Íslendinga og mannkyn allt. Samkvæmd skoðanakönnun Fréttablaðsins eru rúm 60 prósent landsmanna andvíg stækkun álversins í Straumsvík og drjúgur meirihluti þeirra sem styðja Framsóknarflokkinn andvíg henni.

Auðvitað á að vera þjóðaratkvæði um fyrirhugaða álvæðingu á Reykjanesskaga sem snertir á annan tug sveitarfélaga og mun fjötra skagann í net verksmiðja, virkjana og háspennulína allt frá Garðskaga austur í hreppa.

Skoðanakönnunin leiðir ýmislegt athyglisvert í ljós. Ekki er marktækur munur á viðhorfum kjósenda Framsóknarflokksins og Frjálslynda flokksins. Þó er Framsóknarflokkurinn orðinn tákngervingur stóriðjustefnunnar en Frjálslyndi flokkurinn að reyna að sýnast grænn. Fjórðungur þeirra sem segjast myndu kjósa Samfylkinguna styður stækkun. 

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins vega þyngst í stuðningi við stækkun álversins, 70 prósent þeirra eru með en 30 á móti. Þarna kemur berlega í ljós að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem styður stækkunina eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins og því er það hlutverk Framsóknarflokksins ömurlegt að vera tákn stóriðjustefnunnar þegar það er í raun og veru stóri flokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, sem ber þar höfuðábyrgð.

En tölurnar sýna líka að 30 prósent þeirra sem segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn eru á móti stækkuninni. Þetta fólk er læst inni í flokknum af því að það sér ekki trúverðugan valkost hægra megin við miðju sem getur veitt því tækifæri til að láta í ljós skoðun sína á stóriðjumálunum. Þessu þarf að breyta.

 

 


Bloggfærslur 28. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband