TAKMARKIÐ: FJÖLGUN GRÆNNA ÞINGMANNA

Í áttblöðungi sem ég gaf út s.l. haust taldi ég nauðsynlegt að breikka fylkingu umhverfisverndarmanna á Alþingi, - nú hrúgast leikmennirnir vinstra megin á völlinn, svo notuð sé samlíking við handbolta, en vantar leikmenn hægra megin. Ég lýsti eftir bræðraflokki vinstri grænna og þeirra þingmanna Samfylkingar sem eru andvígir stóriðjustefnunni.

Allar götur síðan þá hef ég einnig sagt að nýtt mið-hægri-umhverfisframboð yrði að leiða til þess að fjölgun þingmanna þeim megin yrði meiri en sem næmi þeim þingmannsefnum, sem myndu falla vinstra megin.

Í fréttum er nafn mitt oft nefnt sem frambjóðanda. Ég er nú 66 ára og þarf að huga vandlega að því hvernig ég ætla að klára þau stóru verkefni á sviði umhverfismála, kvikmyndir og annað, sem ég á ólokið. Ég verð að forgangsraða verkefnum. Að sitja á þingi á kafi ofan í margskyns frumvörpum og þingstörfum varðandi önnur mál en umhverfismál er ekki á forgangsröðunarlista mínum.

Ég tel mig hafa hlutverki að gegna á hinni almennu baráttu umhverfisverndarfólks. Í vetur hef ég eftir bestu föngum reynt að laða saman og líma krafta umhverfisverndarfólks. Það tel ég höfuðhlutverk mitt. Í samræmi við orð mín í áttblöðungnum vil ég liðka fyrir öllum hugmyndum um fjölgun grænna þingmanna svo að ekki verði sagt eftirá að ekki hafi verið reynt að finna leið til þess.

Ég hef í allan vetur sagt að ég muni láta skipa mér til verka í baráttunni framundan þar sem kraftar mínir nýtist best. Kosningarnar 2007 verða einstakar að því leyti að aldrei áður og sennilega ekki síðar verður kosið um málefni sem skipta milljónir ófæddra Íslendinga máli. 2011 verður það of seint.

Því aðeins mun ég verða beinn aðili að einu umhverfisframboði fremur en öðru að það verði betra fyrir málstaðinn í heild. Það er ekki enn komið að slíkri ákvörðun hjá mér, - ég þarf betri upplýsingar um vígstöðuna en nú liggja fyrir. 

Á ferli mínum sem flugmaður hef ég oft orðið að leggja upp í erfiðar ferðir þar sem öðrum hefur sýnst ófært, kannski oftar en nokkur annar flugmaður. Ævinlega hef ég vandað til slíkra ferða eftir bestu föngum og langoftast komist á leiðarenda, enda reynt að hafa fleiri en eina leið tiltæka til þess.

Það má orða þetta svona: Ég hef sennilega oftar lagt af stað í slíkar ferðir en nokkur annar, - en ég er líka örugglega sá íslenskur flugmaður sem oftast hefur snúið við, - í tíma. Annars væri ég ekki þar sem ég´er í dag.  

 

 


Bloggfærslur 9. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband