1.3.2007 | 00:02
JÓNS BALDVIN, FAGRA ÍSLAND OG ÁLVERIN.
"Misskilningur Jóns Baldvins" er yfirskrift greinar Birgis Dýrfjörðs sem allir ættu að lesa. Þar segir flokkstjórnarmaðurinn að stefna flokksins"Fagra Ísland" feli alls ekki í sér andóf gegn álverum heldur þvert á móti. Birgir vitnar í samþykktir þingflokksins og Framtíðarhóps flokksins:
"Þess vegna geta þingmenn flokksins stutt álver við Húsavík og eða á Suðurnesjum. Þess vegna getur aukinn meirihluti flokksins í bæjarstjórn Hafnarfjarðar stutt eigin tillögu um um deiliskipulag sem ber í sér möguleika á stækkun álvers í Straumsvík. Þess vegna geta þingmenn stutt byggingu nýrra álvera en um leið lagt til af efnahagsástæðum að þau rísi ekki fyrr en eftir nokkur ár.
Flestir skilja orðalagið "nokkur ár" sem 4-8 ár. Það er mjög stuttur tími. Það eru átta ár síðan samningar og undirbúningur álvers í Reyðarfirði voru komin á fullan skrið.
Álverin sem Birgir segir að sé sjálfsagt fyrir Samfylkinguna að samþykkja munu þurfa nær alla orku Íslands þegar upp verður staðið með núverandi bortækni. Fagra Ísland verður þá að mestu marklaust plagg.
Það verður auðveldara fyrir Alcoa að hóta Húsvíkingum í svipuðum dúr og Alcan gerir nú í Hafnarfirði, þegar þarf að stækka upp í 5-600 þúsund tonn. Húsavík er tíu sinnum minna bæjarfélag en Hafnarfjörður, sem þar að auki er hluti af höfuðborgarsvæðinu.
Birgir segir: "Þess vegna getur það fólk sem á sér draum um stóran jafnaðarmannaflokk unnið saman að því að gera Samfylkinguna að 30-35 % flokki í komandi kosningum." Og hann klykkir út með þessu:
"Þess vegna geta harðir virkjanasinnar unnið heils hugar að því að virkjanaandstæðingar eins og Mörður Árnason nái glæsilegu kjöri til Alþingis þó að þeim þyki stundum að hann sé bæði á móti málmum og rafmagni."
Ég get ekki lesið út úr þessum ummælum annað en fyrirlitningu Birgis á Merði Árnasyni og öðrum góðum umhverfissinnum í Samfylkingunni. Enn og aftur er gefið í skyn að þeir séu á móti rafmagni sem vilja staldra við þegar þjóðin framleiðir brátt fimm sinnum meira rafmagn en hún notar sjálf og selur það mestallt á spottprís til mengandi stóriðju.
En það er ekki það versta. Það hlakkar í Birgi yfir því hvernig þeir sem trúa á Fagra Ísland verði plataðir og vélaðir til þess að vera með í stóriðjuhraðlestinni til þess að lokka auðtrúa fólk til fylgis við stóriðjustefnu sem dynja á yfir með fullum þunga innan fárra ára með hrikalegum afleiðingum fyrir íslenska náttúru.
Ég finn til með góðum og sönnum umhverfissinnum og vinum mínum í Samfylkingunni sem mega sitja undir þessum ummælum flokksstjórnarmannsins. Blygðunarlaust er sagt að Samfylkingin geti orðið að 35 % flokki með þeim tvískinnungshætti sem ummæli Birgis bera með sér.
Í raun er Birgir að taka að mestu undir með framtíðarsýn Geirs H.Haarde um alls sex risaálver á Íslandi fyrir árið 2020. Er það furða að fólk eigi erfitt með að átta sig á því á hvaða leið Samfylkingin sé og gefi henni nú aðeins 24 % í skoðanakönnunum?
Ég á enga aðra ósk heitari handa Samfylkingunni en að hún hlusti á og leiði til valda það góða umhverfisverndarfólk sem þar er að brjótast til áhrifa, nú síðast Reyni Harðarson. Og ég vona að Ingibjörg Sólrún hafi myndugleika til að taka af skarið og gefa með því Samfylkingunni þann trúverðugleika sem nauðsynlegur er fyrir stjórnmálaflokk.
Það skyldi þó ekki vera að fylgi Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum sé ekki meira en raun ber vitni af því að fólk finnur að það er eitthvað óheilt við hana? Sem betur fer eiga ekki við um kjósendur fræg ummæli úr samráðsmálinu: "Fólk er fífl." Nei, - fólk er ekki fífl.
Ég hef margsinnis sagt að höfuðverkefni umhverfisverndarfólks sé að sækja á Sjálfstæðisflokkinn sem ber í krafti stærðar sinnar og stjórnarforystu höfuðábyrgð á stóriðjustefnunni. Það er ærið verkefni þótt Samfylkingin bætist ekki við.
Ég heiti á umhverfisverndarfólk í Samfylkingunni að tryggja það að hún standi við stefnuna Fagra Ísland, - ekki bara fram að kosningum eða rétt fram að þeim, - heldur til framtíðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)