12.3.2007 | 13:18
SLEGGJAN MEÐ "HÓFLEGA STÓRIÐJU."
Ekki var Guðjón A. Kristjánsson fyrr búinn að draga í land yfirlýsingu sína frá landsþingi flokks síns um hóflega stóriðju með álverum en Kristinn H. Gunnarsson segir í Morgublaðsgrein að hófleg stóriðja sé skynsamleg á sama tíma og við blasir hin "hóflega stóriðja" sem þrýsta á fram í langstærsta álveri Evrópu í Straumsvík.
Þótt nú sé talað um 240 þúsund tonna álver við Húsavík verður hægur vandinn fyrir Alcoa að fá því framgengt sem talsmenn allra álfyrirtækjanna hafa sagt að sé nauðsynlegt, sem sé að álver verði að verða a.m.k. 5-600 tonn í framtíðinni til að vera samkeppnisfær.
Af 3ja - 4ra milljarða gróða Alcans á hverju ári munar það fyrirtæki ekkert um að sletta smá broti af því, nokkur hundruð milljónum í áróður fyrir stækkun álversins. Alcoa mun líka þegar þar að kemur leika sér að Húsvíkingum sem eru tíu sinnum færri en Hafnfirðingar.
Síðan má sjá fyrir sér samsvarandi stækkun álversins á Reyðarfirði og þá mun "hóflega stóriðjan" á Norður- og Austurlandi þurfa alla virkjanlega vatns- og jarðvarmaorku norðausturlands, með núverandi tækni, - þ. m. t. árnar í Skagafirði, Sjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum.
Enn einu sinni skal minnt á það að forsætisráðherra útilokaði ekki aðspurður í Kryddsíld virkjun Jökulsár á Fjöllum. Því miður teygir stóriðjustefnan sig úr stjórnarflokkunum yfir í einstaka þingmenn Frjálslynda flokksins og Samfylkingarinnar og veikir stórlega vonir um meirihluta "grænna" þingmanna í komandi kosningum nema hægt verði að fjölga grænu þingmönnunum á einhvern hátt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)