UMHVERFISMÁLAFORYSTA SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS

Þessa dagana klifa talsmenn Sjálfstæðisflokksins á því að flokkurinn sé mesta umhverfisverndarafl Íslands. Vitnað er í Birgi Kjaran og það segir sína sögu að fara þarf aftur undir miðja síðustu öld til að rökstyðja þetta. Formaður flokksins vill sex risaálver á Íslandi á næstu 13 árum sem nota munu nær alla virkjanlega orku landsins með ómældum spjöllum á íslenskri náttúru, sem er mesta verðmætið sem okkur Íslendingum hefur verið falið að varðveita fyrir mannkyn allt. Þegar þessi flokkur telur sig vera mesta umhverfisverndarflokkinn spyr ég:  Kanntu annan? 


ALDARLJÓMI ÍR

Ég hef verið Framari lengur en ég hef lifað því foreldrar mínir skráðu mig í félagið nokkrum mánuðum fyrir fæðingu. En ég er líka ÍR-ingur og keppti fyrir það félag í frjálsíþróttum. Í umfjöllun eins blaðsins um aldar afmæli félagsins er að vísu minnst á afrek Vilhjálms Einarssonar og Völu Flosadóttur en gleymist alveg að minnast á stjörnurnar um miðja síðustu öld sem vörpuðu ljóma á landi á fyrstu árum lýðveldisins.

Þar má meðal annarra nefna Clausenbræður, Finnbjörn Þorvaldsson og Jón Þ. Ólafsson. Örn Clausen var þrjú ár í röð þriðji besti tugþrautarmaður heims og Haukur tvíburabróðir hans átti Norðurlandamet í 200 metra hlaupi í 13 ár.

Það er eitt mesta slys íslenskrar íþróttasögu að Hauki skyldi bægt frá keppni í 200 metra hlaupi á EM í Brussel 1950 sama sumarið og hann náði besta tímanum í Evrópu í þeirri grein.

Ekki var það minna slys að þeir skyldu þurfa að hætta keppni aðeins 22ja ára gamlir. Á þeim aldri eru tugþrautarmenn rétt að byrja að klífa upp afrekastigann. Það kom í ljós í Bandaríkjadvöl Hauks að hann hefði getað orðið geysigóður tugþrautarmaður.

Ekki er út í hött að ætla, að hefðu þeir bræður haldið áfram og fengið þjálfun í Bandaríkjunum hefði alveg verið í myndinni að sjá þá báða á verðlaunapallinum í Melbourne.

Jón Þ. Ólafsson stökk 2,11 metra með þriggja skrefa atrennu í litla ÍR-húsinu sem var eitt besta innanhúshástökkið í heimi þann veturinn. Lengi mætti telja afrek ÍR-inga í gegnum tíðina.

ÍR-taugarnar eru sterkar og ég vona að félagið dafni og afreksfólk þess blómstri á annarri öld sögu þess.  


Bloggfærslur 14. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband