ÁFRAM HEILSUVERNDARSTÖÐ - FRÁBÆRT

Það eru góðar fréttir að Heilsuverndarstöðin verði ekki að hóteli heldur áfram notuð í lækningastarfsemi. Stöðin var sérhönnuð sem heilsuverndarstöð á sínum tíma, merk bygging og fögur. Of margar merkar byggingar eru ýmist rifnar, þeim breytt eða þær fluttar í annað umhverfi.

Manni verður hugsað til Fjalakattarins og fleiri húsa í þessu sambandi. Meðan Heilsuverndarstöðin var í byggingu var hún eitt ævintýralegasta leiksvæðið á bernskuárum mínum með koldimmum ófullgerðum rangölum sínum í kjallaranum sem voru kjörnir fyrir æsilega leiki.  


RÓLEGAR STÓRIÐJUFRAMKVÆMDIR

Í eldhúsdagsræðu sinni í gær sögðust Sjálfstæðismenn ætla "að hægja á" smíði álvera. Þetta er orðið gamalkunnugt trix sem felst í því að reyna að svæfa umhverfisverndarfólk. Sagan undanfarin átta ár sýnir þetta glöggt. Þegar álæðið hófst var fyrst sagt að aðeins yrði reist 120 þúsund tonna álver á Reyðarfirði, og að það myndi nægja í bili.

Ekki var liðið ár þegar álverið var orðið 420 þúsund tonn en þá sagt að ekkert yrði gert á suðvesturhorninu á meðan. Varla var liðið ár þegar hafist var handa við að stækka álverin á Grundartanga og í Straumsvík. Það gleymist í stækkunaræðinu núna að bæði þessi álver hafa þegar verið stækkuð stórlega.

Í fyrra bættist síðan við undirbúningur undir álver við Húsavík, í Helguvík og á Þorlákshöfn. Nú er samt sagt að hægt verði á þessum framkvæmdum en látið nægja að stækka í Straumsvík. Svæfingaraðferðin hefur dugað vel því ævinlega hefur umhverfisverndarfólk vaknað upp við vondan draum þegar álverunum hefur verið þrýst í gegn með því að segja að komið sé svo langt að of seint sé að snúa við.

Þessi aðferð er til dæmis í góðu gildi í Skagafirði og allt tal um að hægja á byggingu álvera er marklaust meðan eftir standa ummæli forsætisráðherra um þrjú ný álver fyrir 2020. Það þýðir tvöföldun á aðeins 13 árum sem er stuttur tími, - enginn hægagangur.  


Bloggfærslur 15. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband