16.3.2007 | 11:44
ÁHÆTTA Á KOSTNAÐ ÞJÓÐARINNAR
Í frétt í Blaðinu í dag sést að nú er að koma í ljós hluti af því sem ég benti á í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti", og fyrir hálfu ári í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár". Þar var eftirtalin tilvitnun í álit lögfræðings Landsvirkjunar:
"...virkjunin er erfið og áhættusöm jaðarframkvæmd í landfræðilegu, tæknilegu, umhverfislegu og markaðslegu tilliti, - er í raun eyland í raforkukerfinu og rýrir það gildi vatnsréttinda. Ekki er hægt að útiloka að stofnkostnaður fari fram úr áætlunum vegna tæknilegra örðugleika á byggingartíma og rekstrarkostnaður Hálslóns geti orðið umtalsverður ef beita þurfi ítrustu mótvægisaðgerðum vegna skilyrða um umhverfisþætti."
Á sínum tíma sagði Halldór Ásgrímsson að Impregilo hefði bjargað virkjuninni með lágu tilboði sínu því hin tilboðin hefðu verið svo há að útilokað hefði verið að taka þeim, - virkjunin hefði þá ekki skilað arði. Raunar er arðurinn sem virkjunin átti að skila svo lítill að ekkert einkafyrirtæki, stórt eða smátt, hefði lagt í þessa framkvæmd með svo lágri arðprósentu.
Einn af talsmönnum NCC sagði mér að tilboðið hjá þeim hefði verið jafn hátt og raun bar vitni vegna þess að auðséð var að mikil áhætta fylgdi verkefninu og það væri mjög flókið. Mikil hætta væri á að forsendur sem Landsvirkjun setti fram í útboðsgögnum stæðust ekki og ekki væri ráðlegt að standa í þrefi um kröfur á hendur Landsvirkjun vegna þess.
Ég benti NCC-manninum á að Impregilo hefði ekki látið þetta aftra sér. Hann sagði þá að öðru máli gilti um Impregilo, - þeir hefðu á sínum snærum einhverja bestu og hörðustu lögfræðinga Evrópu. Nú hefur komið í ljós að gangagerðin er langt á eftir áætlun og stefnir í háar sektagreiðslur Landvirkjunar til Impregilo.
Impregilo-menn geta verið rólegir, - þeir vita að verkið er ríkistryggt. Íslenskir ráðamenn geta líka verið rólegir, - þeir vita að dæmið verður ekki allt gert upp fyrr en eftir kosningar og að þá muni kjósendur borga milljarða umframkostnað og vera búnir að gleyma öllu eftir fjögur ár þegar bygging nýrra álvera og virkjana verður á fullri ferð.
Nú kemur það enn og aftur í ljós að 3-5 kílómetra misgengisbelti við Þrælaháls verður mönnum þungt í skauti fyrir austan. Í sjónvarpsfréttum í fyrra sýndi ég kvikmynd þar sem þetta misgengisbelti sést vel úr lofti og spurði yfirmann jarðfræðirannsókna hvort þeir hefðu ekki séð það líka og hvers vegna ekkert hefði verið borað í það til að rannsaka það.
Hann sagði svo vera en tíminn hefði verið naumur, aðgengi erfitt og óvíst um árangur. Þegar ég innti talsmann Landsvirkjunar eftir áliti hans á því að ekki voru boraðar rannsóknarholur í misgengissvæðið sagði hann þessi orð, sem lýsa þessari framkvæmd í hnotskurn: "...og það hefði engu breytt - við hefðum þurft að fara þarna í gegn hvort eð var."
Þessi orð hefði átt að letra í hornstein Kárahnjúkavirkjunar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)