SÉRGREIN FRAMSÓKNAR FYRIR KOSNINGAR

Hótun Framsóknar um að slíta stjórnarsamstarfinu kortéri fyrir kosningar vegna auðlindaákvæðis í stjórnarskrá er gamalþekkt trix þessa flokks þegar illa lítur út í komandi kosningum. Dæmi frá fyrri tíð: Í Stefaníustjórninni 1949 fékkst Framsókn ekki til þess að fella gengið sem var óhjákvæmilegt og gerði um það ágreining við Sjálfstæðisflokkinn sem olli stjórnarslitum.

Minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins reið síðan á vaðið í málinu og í helmingaskiptasamstarfi flokksins og Framsóknarflokksins 1950 var gengisfellingin gulltryggð en að vísu tekið upp margfalt gengi með svonefndu Bátagjaldeyriskerfi, sem þjóðin leið fyrir allt til 1959 þegar Viðreisnarstjórnin afnam það.  

Framsókn hafði fyrir kosningarnar 1950 reynt að skapa sér sérstöðu rétt eins og nú og Rannveig Þorsteinsdóttir komst á þing fyrir Framsókn í Reykjavík, sem var einsdæmi vegna þess að þingmenn Reykjavíkur voru þá aðeins sex. Hún sagðist "segja frjáplógsstarfseminni stríð á hendur!"

Auðvitað varð ekkert af því en í staðinn komu flokkarnir tveir á einhverju spilltasta fyrirgreiðslukerfi á byggðu bóli með helmingaskiptastefnunni alræmdu sem byggðist á að misnota ranglátt haftakerfi, - líklegast það langlífasta í Vestur-Evrópu. Það er í raun ekki fyrr en á síðasta áratug aldarinnar sem síðustu leifum þessa skaðlega kerfis var rutt í burtu.    

1956 var Framsókn farin að líða fyrir samstarfið við Sjálfsstæðisflokkinn og í mars það ár gerði hún hermálið að ágreiningsefni en rak þó herinn aldrei eftir að hún var komin áfram í stjórn.

Nú á enn að grípa til sama ráðs og það á að slá tvær flugur í einu höggi: Láta líta svo út sem mikill munur sé á stjórnarflokkunum og krækja sér í mál sem leiðir athyglina frá stóriðjustefnunni og umhverfismálunum.

Það er svolítið sérkennilegt að heilt kjörtímabil hefur liðið án þess að séð verði að Framsókn hafi gert mikið í þessu auðlindamáli en nú blossar það allt í einu upp. Össur
Skarphéðinsson segir að í stjórnarskrárnefndinni hafi fulltrúar Framsóknar aldrei minnst á þetta ákvæði eða í það minnsta ekki haft nokkurn áhuga á því.

En hvað um það, - það hefur verið blásið ryk af gömlu trixi sem gafst ágætlega hér áður fyrr. En nægir það nú? 

 


RAGGI BJARNA - "KARLINN MEÐ HENDINA"

Það sem einu sinni var gott verður alltaf gott. Það hefur sannast vel á Ragnari Bjarnasyni síðustu árin. Fyrir aðeins fjórum árum bað dagblað eitt helstu poppsérfræðinga landsins um að nefna bestu poppsöngvara síðustu hálfrar aldar og komust ótrúlegustu söngvarar á blað á löngum lista, - þeirra á meðal ég og Jón Ólafsson á Bíldudal!

Ellý Vilhjálms var efst á blaði og Haukur Morthens var að sjálfsögðu meðal þeirra efstu á listanum. Hins vegar komst Ragnar Bjarnason ekki einu sinni á blað hjá þessum sérfræðingum!

Mér rann í skap við að sjá þetta dæmi um ótrúlegt skammtímaminni en þegar þetta gerðist var ég mjög upptekinn við myndina "Á meðan land byggist" og hafði ekki tíma til að gagnrýna þetta opinberlega með því að spyrja í blaðagrein hvort það hefði bara verið misskilingur hjá þjóðinni að á löngu árabili eftir 1955 voru þeir Ragnar og Haukur Morthens efstir í vinsældum á Íslandi og hafði Raggi oftar betur.

Mig langaði einnig að spyrja hvort menn gætu tilnefnt söngvara sem syngi jafnvel jafn ólík lög og Vorkvöld í Reykjavík, Kokkur á Kútter frá Sandi, Vor við flóann, Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig, Óli rokkari, Ship o hoj, Lipturtá...o. s. frv.   

Aðeins tveimur árum síðar var þetta gerbreytt. Gott dæmi um það er að til mín kom tíu ára drengur og spurði mig: "Þekkir þú karlinn með hendina?"

Ragnar heldur stórtónleika í Háskólabíói´annað kvöld og ég hvet fólk til þess að fara og heyra og sjá þennan einstæða söngvara og gleðigjafa.

Ragnar er að sjálfsögðu einstaklega góður söngvari, kominn á áttræðisaldur, en hann er jafnvel enn betri dúettsöngvari og vart er hægt að hugsa sér betri dúett en Ragnar og Ellý á sínum tíma. Því miður voru alltof fá lög tekin upp með þeim. Það verður gaman að sjá hvernig þau syngja saman hann og Eyvör Pálsdóttir annað kvöld.

Ferill Ragnars er einstakur, alltaf á toppnum, fyrst með KK-sextett og hljómsveit Svavars Gests en síðan með eigin hljómsveit og í Sumargleðinni. Þess vegna er frábært til þess að vita að hann fái þá umgerð og mannskap sem hann á skilið annað kvöld til að láta ljós sitt skína sem aldrei fyrr.

Það sem einu sinni var gott verður alltaf gott.


ÁFRAM TVÍSÝNT UM ÚRSLIT

Skoðanakönnun Capacent Gallup sýnir hvað kosningaúrslitin geta orðið tvísýn. Ef úrslitin yrðu þessi yrði  meirihluti  núverandi stjórnarandstöðuflokka svo naumur að ekki þyrfti nema einn eða tvo stóriðjuþingmenn til að fella græna stefnuna eða halda henni í gíslingu. Nægir að nefna Kristin H. Gunnarsson, Kristján Möller og Einar Má Sigurðarson í því sambandi.

Á hinn bóginn yrði lang einfaldast fyrir núverandi stjórnarflokka að kippa frjálslyndum upp í. Jón Magnússon myndi elska það að koma eins og frelsandi engill í faðm sinna gömlu flokksbræðra. Þetta yrði svipað og þegar Steingrímur Hermannsson kippti borgaraflokksþingmönnum upp í vinstri stjórn sína.

Það myndi þýða að málin yrðu möndluð þannig að stóriðjustefnunni yrði í raun haldið áfram. Það yrði ekki gæfulegt.

Athyglisvert er hvað "turnarnir" tveir sem svo voru kallaðir hér fyrrum, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin koma veikir út úr þessari könnun, samanlegt með innan við 60 % kjósenda á bak við sig. Á sínum tíma var rætt um ca 75-80 % samanlagt fylgi turnanna.

Báðir ætla að halda landsþing sín sömu helgina og fróðlegt verður að sjá hvernig þeim tekst að skerpa vopnabúnað sinn þá. En það er afar bagalegt fyrir þá að þurfa deila sömu helginni til þess arna.


Bloggfærslur 2. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband