HÆGT AÐ STÖÐVA STÓRIÐJUNA !

Skoðankönnun Fréttablaðsins sýnir að fylgi við Íslandshreyfinguna er forsenda þess að hægt sé að koma í veg fyrir myndun hreinnar stóriðjustjórnar stjórnarflokkanna og Frjálslynda flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn og frjálslyndi flokkurinn tapa frá síðustu könnun og því er ekki hægt að segja að Íslandshreyfingin taki bara fylgi frá vinstri eins og margir tönnlast nú á.   

Þetta þýðir að þetta nýja framboð getur nagað nógu mikið fylgi umhverfisverndarfólks af stóriðjuflokkunum þremur á hægri vængnum til þess að hér verði umskipti í kosningunum í vor. Önnur græn framboð geta það ekki í nógu ríkum mæli.

Gömlu flokkarnir hafa fengið stórt forskot í vetur til að kynna framboðslista sína og stefnuskrár og því eru þessar niðurstöður skoðanakönnunarinnar uppörvandi fyrir baráttuna sem framundan er. Í henni verður að vísu hrikalegt ójafnræði í fjárstyrk framboðanna þar sem gömlu framboðin hafa úthlutað sér úr ríkissjóði 360 milljónum til kosningabaráttunnar á sama tíma og við fáum ekki krónu.

  


KOMIN AF STAÐ ! FJÁRHAGSLEGT ÓJAFNRÆÐI FRAMBOÐA.

Það er búið að vera blogghlé hjá mér í þrjá daga af tveimur ástæðum: týndri tengisnúru við tölvuna mína sem erfitt var að fá, -  og fæðingu Íslandshreyfingarinnar - lifandi lands. Í gær var farin fyrsta kynningarferðin og tókst mjög vel. Það var viðeigandi að byrja á Akranesi sem er mesti stóriðjubær landsins, en síðan var farið í Borgarnes.

Fyrir tilviljun var framboðið kynnt á alþjóðlegum degi vatnsins. Það var mjög viðeigendi fyrir grænt stjórnmálaafl að dagurinn skyldi kenndur við dýrmætasta vökva heims, en nýting vatnsins verður eitt erfiðasta umhverfismál 21. aldarinnar.

Framundan er gríðarlega mikið annríki því að þetta framboð kemur fram langt á eftir hinum og verður að klára öll sín mál á ljóshraða. Þar að auki hafa flokkarnir sem fyrir eru á þingi skammtað sér 360 milljónir króna til þess að heyja kosningabaráttuna á sama tíma og ekki kemur króna til nýs framboðs.

Stjórnmálafræðingur sagði á dögunum að sjónvarpsauglýsingar hefðu mikil áhrif á óákveðna kjósendur sem gætu skipt sköpum í kosningunum. Í síðustu kosningum nýttu framsóknarmenn sér þetta en nú munu allir þingflokkarnir fimm nýta sér það óspart.

Lýðræðið felst sem sé í því að nýtt framboð sem er Davíð í fjárhagslegum skilningi verður að ráðast gegn fimm Golíötum! Í raun er því verið að fara fram á að ný öfl sem vilja bjóða fram til þings vinni kraftaverk.

En við sem að þessu framboði stöndum trúum á málstaðinn og erum staðráðin í því að ráðast ótrauð og baráttuglöð gegn þessum fimm peningadrekum nánast með berum höndunum til að vinna stefnumálum okkar framgang.  

 

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 25. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband