ÞAÐ ER HÆGT AÐ SELJA ROK OG RIGNINGU

Margir standa í þeirri trú að útlendingar komi til Íslands til að vera í sól og hita. Þetta er misskilningur. Á ferð um vesturströnd Írlands komst ég að því að fólk sunnar úr Evrópu kom þangað til að standa í saltrokinu og rigningunni sem stóð af Atlantshafinu af því að það hafði ekki upplifað slíkt í heimalandi sínu, - fengið meira en nóg af sól og hita.

Fyrir nokkrum árum ákvað ferðaskrifstofa í Reykjavík að fella niður ferð út að Reykjanesvita vegna roks og rigningar. Hluti ferðamannanna sagðist ekki vera kominn til að fara í verslanir í Reykjavík og heimtaði að fá að fara út á Reykjanes.

Á bjargbrún við vitann stóð þetta fólk og tók yfir sig sælöður og regn þangað til það var orðið gegnvott og þegar það kom til Reykjavíkur urðu samferðamenn grútspældir yfir því að hafa ekki fengið að upplifa það að fá öldur Atlantshafsins allt sunnan frá Suðurskautslandinu beint yfir sig.

Á ráðstefnu um miðhálendið fyrir nokkrum árum stóð upp gamall Austfirðingur og sagðist hissa á því hvað menn sæu merkilegt við þetta margumtalaða hálendi. Hann vissi það eftir áratuga reynslu að eina leiðin til að fá útlendinga til að koma til Austurlands væri að fara með þá í Hallormsstaðaskóg!

Finnst mönnum líklegt að útlendingar komi langar leiðir hingað til lands frá skógi vöxnum svæðum Evrópu til að sjá þennan litla íslenska skóg?

Til Lapplands koma fleiri ferðamenn á veturna en allt árið til Íslands. Á þeim slóðum sögðu ferðamálasérfræðingar mér að útlendingum væru seld fjögur fyrirbrigði: Myrkur, kuldi, þögn og ósnortin náttúra.

Íslendingar fara til sólarlanda til að upplifa það sem ekki er hægt að upplifa hér á landi. Suðurlandabúar koma til Íslands til að upplifa eithvað allt annað en þeir þekkja í sínu landi.


Bloggfærslur 26. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband