ENN EITT "EITTHVAÐ ANNAÐ"

Í grein minni í Morgunblaðinu í morgun sem Stöð tvö fylgdi eftir í kvöld kemur fram að kapphlaup er hafið milli tölvufyrirtækja um að setja upp starfsemi hér á landi sem dreifist um landið, skapar hundruð starfa hátæknifólks og þarf hundruð megavatta af orku. Hinn stóri munur á þessu og álverunum er hve miklu umhverfisvænni þessi starfsemi er, tilbúin að borga hærra orkuverð og að ekki er um eins stórkarlalegar einingar að ræða og 500 þúsund tonna álver eru.

Af þeim sökum er hægt að stíga mun varlegar til jarðar varðandi nýtingu orkunnar fyrir þessi fyrirtæki, fara sér hægar, - og hærra orkuverð þýðir að meiri möguleikar eru til að setja gufuleiðslur, línur og jafnvel fleiri mannvirki í jörð og gera jarðvarmavirkjanirnar þannig umhverfisvænni.

Þetta er eitt af mörgum dæmum um það sem hent hefur verið á lofti í háðungarskyni sem "eitthvað annað" en er raun og sann leið til þess að breyta um stefnu í hagstjórn og atvinnumálum hér á landi.

Með því að hverfa frá þenslustefnu sveiflna og okurvaxta í átt að hagkerfi í meira jafnvægi má laða fram starfsemi í fjármála- hátækni- og þekkingariðnaði sem dregur úr fráhvarfseinkennum þess að hægja á hraðlest virkjanfíkninnar.

Í Morgunblaðsgreininni bendi ég á skilningsleysi stjórnvalda á því að leggja nýja sæstrengi til útlanda til þess að gera tölvufyrirtækjunum mögulegt að hasla sér hér völl. Núverandi ástand er ólíðandi og getur orðið til þess að fyrirtækin treysti sér ekki til að koma hingað.

 Sæstrengirnir eru nokkurs konar samgönguæðar og það að hafa þær ekki í lagi er hliðstætt því að bjóða millilandaflugfélögum upp á ótryggan og ónothæfan Keflavíkurflugvöll.

Hjá tölvufyrirtækjunum segja menn að ef þessu verði ekki kippt í liðinn með hraði sé hætt á því að fyrirtækin fari eitthvað annað í viðleitni sinni til að ná forskoti á keppinautana.

Forskotið felst meðal annars í því að tryggja sér aðgang að endurnýjanlegri og hreinni orku því að það skapar fyrirtækjunum viðskiptavild sem þau meta til mikils fjár.

Á hinn bóginn eru þessi fyrirtæki mjög á varðbergi gagnvart því að keppinautarnir eigi möguleika til að kasta rýrð á orkuöflunina. Það þýðir einfaldlega það að ekki er boðlegt að kreista 600 megavött út úr Hengils- Hellisheiðarsvæðinu sem verður síðan kalt eftir 40 ár.

Svona hugsunarháttur gengur ekki. "Endurnýjanleg orka" verður sannanlega að vera endurnýjanleg þótt það kosti að orkuverðið hækki. Ef tölvufyrirtækin geta treyst því að þetta sé pottþétt borga þau það verð sem slíkt kostar.  

Þetta mál sýnir að Hafnfirðingar þurfa ekkert að fara á taugum þótt Alcan hóti að leggja álverið niður. Aðrir geta komið í staðinn og þess vegna verið með húsakynnin neðanjarðar fyrir mengunarlausa starfsemi sína.

 


GRÆNIR OG GRÁIR ÞINGMENN

Nýjustu tölur úr söfnun undirskrifta undir Sáttmála Framtíðarlandsins sem birtar voru í gærkvöldi í Hafnarfjarðarleikhúsinu voru áhugaverðar. Enginn þingmaður frjálslyndra hefur skrifað undir og heldur ekki neinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Fjórir þingmenn Samfylkingar hafa ekki skrifað undir.

Af framsóknarmönnum hefur aðeins Jónína Bjartmarz skrifað undir. Einn varaþingmaður Sjálfstæðismanna, Katrín Fjeldsted, hefur skrifað undir og staðið einmana vakt þar á bæ, einu sinni enn.

Allir vinstri grænu þingmennirnir hafa skrifað undir og komi Íslandshreyfingin mönnum á þing í vor í samræmi við skoðankönnun Fréttablaðsins er rétt að upplýsa að þeir , sem þar koma til greina, eru búnir að skrifa undir.

Skoðanakannanir sýna reyndar vel að þeir sem geta hugsað sér að kjósa Íslandshreyfingun eru nær allir andvígir stækkun álversins í Straumsvík.   

Í panelumræðum í Hafnarfjarðarleikhúsinu kom vel fram hve samstíga talsmenn vinstri grænna og Íslandshreyfingarinnar voru í virkjana- og stóriðjumálunum, sem til umræðu voru, þótt ágreiningur geti verið á milli þessara framboða í ýmsum málum sem ekki tengjast umhverfismálum og voru ekki rædd á fundinum.

Þar sem talsmenn framboða koma fram um þessar mundir hefur fjölgað um eina græna rödd. Ingibjörg Sólrún hélt ágætlega fram sínu Fagra Íslandi og mælti með stóriðjuhléi, en það hlýtur að hafa skyggt á fyrir henni að sjá á stórum skjá gráu samfylkingarþingmennina fjóra  sem ekki hafa skrifað undir sáttmála Framtíðarlandsins.


Bloggfærslur 29. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband