ÁBYRGÐ HAFNFIRÐINGA

Ábyrgð Hafnfirðinga er mikil þegar þeir ganga að kjörborðinu í dag og kjósa um stækkun álversins. Þeir kjósa um það hvort langstærsta álver Evrópu heilsi erlendum gestum Íslendinga í anddyri landsins við borgarhlið höfuðborgarsvæðisins. Ég þekki enga aðra innkomuleið að höfuðborg í okkar heimshluta þar sem jafn afgerandi tákn um mengun og hráa iðnvæðingu blasir við og ber ægishjálm yfir allt umhverfi sitt.

80 prósent erlendra ferðamanna segjast vera komnir til landsins til að skoða einstæða og ósnortna náttúru þess og þetta risaálver mun vekja hjá þeim margar spurningar um hugsunarhátt þjóðarinnar sem hefur verið falið að varðveita þessa náttúru fyrir óbornar kynslóðir og mannkyn allt.

Stækkun álversins í Straumsvík er aðeins hluti af stóriðju- og virkjanahraðlest sem nú brunar stjórnlaust áfram og mun fyrr en varir leiða til þess að fyrsta mannvirkið, sem blasir við erlendum gestum okkar þegar þeir koma til landsins, verði álver í Helguvík og að síðan muni þeir aka allt austur undir Landmannalaugar um landslag með samfelldri röð verksmiðja, virkjana, uppistöðulóna og háspennulína.

Nú vona ég og bið að Hafnfirðingar hugsi til fólksins við Þjórsá, íbúa átta sveitarfélaga sem málið snertir og annarra landsmanna sem ítrekað hafa sýnt í skoðanakönnunum að meirihluti þjóðarinnar vill ekki stækkun álversins í Straumsvík.

 


Bloggfærslur 31. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband