HELENA Í KVÖLD, RAGGI Í GÆR.

Ég ólst upp Stórholtinu í Reykjavík  og í þeirri götu og neðri hluta Meðalholtsins átti heima ótrúlegt safn fólks, þeirra á meðal Helena Eyjólfsdóttir, Bjarni Böðvarsson og sonur hans, Ragnar Bjarnason, Kristín Ólafsdóttir, KK- Kristján Kristjánsson og sonur hans Pétur Kristjánsson, Friðrik Þór Friðriksson, Ámundi Ámundason, Gunnar V. Andréssson ljósmyndari, Pétur Pétursson þulur og Ragnheiður Ásta Pétursdóttir, dóttir hans, Gunnar Eyþórsson, blaðamaður, en sonur þeirra Gunnars og Ragheiðar Ástu er Eyþór Gunnarsson.

Allt þetta fólk sem tengdist tónlist og listum á aðeins nokkur hundruð metra svæði. Þetta var þorp um miðja síðustu öld, því allt í kring voru auð svæði. Í gær hélt Helena tónleika í Salnum, - Raggi Bjarna fór á kostum í Háskólabíói í gær. Hver kemur næst?

En upptalingunni er ekki lokið því gatan var full af fleira sérkennilegu eða frægu fólki, talið upp eftir Stórholtinu: Pétur Hannesson og dóttir hans, Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, Bernhard Arnar kaupmaður og sonur hans, Björn Arnar, Villi sleggja, Hafsteinn miðill, á 31 Ingólfur Hólakot, á 33 Raggi bakari og Jónína, formaður Hvatar, Jón Ragnarsson rallkappi, á 35-37 voru Snæra-Mangi og sonur hans Ólafur (Óli spotti), Jói svarti, Hilmar Karlsson kvikmyndagagnrýnandi, xxxx fulla, næst fyrir ofan voru Eyþór Gunnarsson læknir, - á 26 voru Helgi Kristjánsson glímumaður og Davíð Helgason körfuboltamaður, á 22 voru Stína og Hafliði, Dunna dóttir þeirra, gift Rúnari Guðbjartssyni, flugstjóra, sálfræðingi og flughræðslulækni, á 22 Sigga Hannesar verkalýðsrekandi. Baldur Scheving knattspyrnumaður á næstu grösum í Meðalholti , - en 30 metrum frá mótum Stórholts og Háteigsvegar voru Ólafur Georgsson og Alda Hansen og sonur þeirra Georg Ólafsson. Og ekki voru nema ca 150 metrar í Einholtið þar sem Kristján Ragnarsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, ólst upp.

Þetta var stórkostlegt þorp til að alast upp í. Og gaman að vita af því hve margir þorpsbúa eru enn í fullu fjöri!

 

 


GRÆN ATKVÆÐI FRÁ MIÐJUNNI OG HÆGRI

Stundum þarf að leiðrétta þegar ónákvæmt er eftir haft. Haft var eftir mér í útvarpsviðtali að fyrirhugað framboð sem snerist um "umhverfi, nýsköpun og velferð" yrði hægra megin við miðju. Ég orðaði það ekki svona heldur að stefnt væri að því að það fengi einkum græn atkvæði frá miðjunni og hægri vegna þess að úti á vinstri kantinum væri grænt framboð sem vinstri sinnað fólk gæti kosið.


Ó, AÐ FRAMSÓKN VERÐI GRÆN Á NÝ !

Einkennileg eru þau örlög mín að hafa aðeins einu sinni getað kosið Framsóknarflokkinn eða fylgt honum í þau 57 ár sem liðin eru síðan ég fékk brennandi áhuga á stjórnmálum. Allan tímann hefur samt mér líkað nokkuð vel hvar flokkurinn hefur staðsett sig í litrófi flokkanna, - nálægt miðjunni. Flokkurinn hefur reynt að sía frá helstu öfgar til vinstri og hægri og velja það skásta. Hitta gullinn meðalveg. 

Þegar fasismi og kommúnismi riðu samtímis yfir heiminn á fjórða áratug síðustu aldar reyndi Framsóknarflokkurinn að finna farveg til jöfnuðar með Alþýðuflokknum og saman stóðu þessir flokkar að mörgum góðum umbótamálum fyrir alþýðuna.

En allar götur frá 1927 til 1959 barðist flokkurinn fyrir ranglátri og skaðlegri kjördæmaskipan, þannig að engin leið var fyrir mann að játast honum. Og uppfrá 1950 stóð hann fyrir haftakerfi og þjónkun  við kaupfélagsveldi sem breyttist smám saman úr umbótahreyfingu í staðnað veldi einokunar í dreifðum byggðum landsins.

Mér hefur gefist kostur á að nota kosningaréttinn í 13 Alþingiskosningum og 12 borgarstjórnarkosningum eða 25 sinnum alls og kosið alls fimm flokka, eða fimm sinnum hvern að meðaltali. Suma þó oftar en aðra.

En aðeins einu sinni kaus ég Framsókn. Það var árið 1974 þegar ég óttaðist að eftir "Varið land" yrði keyrt of hart í það að efla hersetuna. Ég þóttist sjá fyrir samstjórn Sjálfstæðísflokks og Framsóknar og vildi að Framsókn héldi svoítið aftur af Sjálfstæðisflokknum.

Í kosningunum 1978 gat ég ekki kosið Framsókn aftur, en eftir að SÍS-veldið leið undir lok var ég farinn að vona að nú gæti ég loksins átt samleið með Framsókn. En, - æ, þá gerðist flokkurinn tákngervingur stóriðjustefnunnar. Flokkurinn hefur alltaf haft lag á að taka upp eitthvert eitt mál sem hefur gert mig fráhverfan honum. 

Þetta finnst mér synd því margt af því sem flokkurinn stendur fyrir eru ágætis mál. Nú hefur til dæmis verið samþykkt á flokksþingi hans ýmislegt sem vert er að gefa gaum s. s. um málefni aldraðra, fæðingarorlof, þjóðlendumál, auðlindarákvæði í stjórnarskrá, breytingar á kosningalögum o. s. frv.

Nú er maður orðinn 66 ára og þeim tækifærum fer að fækka að ég geti kosið Framsókn aftur. Ég á mér samt þann draum að flokkurinn láti af stóriðjustefnunni. Það er ekki útséð um það, - rúmlega helmingur þeirra sem segjast myndu kjósa hann nú segjast vera á móti stækkun álverins í Straumsvík

Mér finnst svolítið leiðinlegt að hafa kosið þennan flokk sjaldnar en aðra flokka og hafa hálfséð eftir því í þetta eina skipti sem ég kaus hann. Og það er ekkert skemmtilegt ef maður neyðist til að fara út í framboð til þess að gefa því ágæta fólki, sem vill að virkjana- og álverafíkninni linni og er ekki úti á vinstri kanti stjórnmálanna, tækifæri til að láta það í ljós í kjörklefanum.  

En ef sá draumur minn rætist að allir flokkar á Alþingi verði eðalgrænir er aldrei að vita nema ég muni eftir því að einu sinni þegar ég var ungur var Framsókn græn og þá var Eysteinn Jónsson einhver einlægasti umhverfisverndarsinni landsins. Kannski kemur nýr Eysteinn með nýjan Framsóknarflokk, - hver veit? Flokk sem ég get kosið með góðri samvisku. 

 


Bloggfærslur 4. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband