5.3.2007 | 11:00
LÝÐRÆÐIÐ OG TRAUST Á ALÞINGI
Hvað myndi gerast ef aðeins 29 prósent hluthafa á hluthafafundi fyrirtækis bæru traust til stjórnarinnar? Hún yrði að segja af sér. En þetta á við um Alþingi. Samkvæmt skoðanakönnun hefur fólk aldrei borið jafn lítið traust til þess og nú, - aðeins 29 prósent. 71 prósent landsmanna vantreystir þinginu og það þykir ekki lengur frétt.
Ef þetta væri fyrirtæki væri ekki aðeins búið að reka stjórnina heldur væri líka erfitt að fá starfsfólk til að vinna hjá því. Það er ekki að undra að fólki ói við því að gefa kost á sér til að fara inn á slíkan vinnustað.
Þetta er alvarlegt mál lýðræðisins vegna. Alþingi er samkoma fulltrúanna sem þjóðin hefur valið til að fara með mál sín, elsta löggjafarsamkoma heims. Þetta bendir til alvarlegrar brotalamar á lýðræðinu á Íslandi en er þó ekki sú eina.
Undanfarin átta ár hef ég kynnst því hvernig reynt var á alla lund beint og óbeint að hamla upplýsingagjöf um mikilsverðasta mál okkar samtíma. Íslensk stjórnvöld eru hin einu í okkar heimshluta sem ekki vilja skrifa undir Árósasamkomulagið sem kveður á um það að leitað sé jafnræðis milli mismunandi skoðana um stórmál eins og umhverfismálin.
Það þýðir að enn reyna ráðandi öfl að beita ofurvaldi aðstöðu, fjármagns og valda til að hamla upplýsingagjöf og koma í veg fyrir jafnræði ólíkra sjónarmiða.
Störf og virðing æðstu stofnunar landsins og upplýsingagjöf og jafnræði milli sjónarmiða eru meðal hornsteina lýðræðisins. Það er áhyggjuefni að þeir skuli ekki vera traustari.
Ef til framboðs umhverfissinnaðs umbótafólks kemur verður lýðræðið og efling þess þar ofarlega á blaði, - til dæmis ákvæði um aukið persónukjör sem og þjóðaratkvæði eða kröfur um stóraukinn meirihluta í málum sem varða alla þjóðina mest, -einkum þau mál sem snerta munu beint hagsmuni milljóna ófæddra Íslendinga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)