SVIFRYK OG MALBIKSNOT

Ætli það sé ekki meina en áratugur síðan ég hóf að fjalla ítrekað í sjónvarpsfréttum um svifyk og áhrif negldra hjólbarða á það og sýndi hrollvekjandi myndir af því, - einnig það að samkvæmt sænskri prófun dygðu aðeins negldir hjólbarðar og harðkornadekk á blautu, hálu svelli. Síðan hafa komið fram nýjar tegundir hjólbarða sem veita aukið grip. Fyrir lá að aðeins örfáa daga eða hluta úr degi á vetri hverjum séu raunveruleg not fyrir neglda hjólbarða á götum Reykjavíkur.

Loksins núna er vandamálið komið í almennilega umræðu. Það er augljóslega lítil sem engin þörf á negldum hjólbörðum á götum Reykjavíkur. Hins vegar eykst umferð um þjóðvegina út frá borginni. Sumarbústaðaeigendum fjölgar og margir vilja vera á góðum hjólbörðum ef þeir þurfa til dæmis að skreppa austur fyrir fjall.

Á Íslandi er vindasamara en í öðrum löndum Evrópu og það er ekkert tilhlökkunarefni að aka yfir Hellisheiði í hávaðaroki á hlið þegar vegurinn er glært svell. Hins vegar hefur Vegagerðin lagt aukna áherslu á að halda helstu þjóðvegum landsins auðum.

Lausn mála virðist felast í því að tryggja að fólk komist þessar leiðir án þess að þurfa að hafa áhyggjur af mikilli hálku. Eigendur sumra bíla telja sig reyndar þurfa að vera viðbúna til að fara, jafnvel með engum fyrirvara, í hvaða ferðir sem er hvert á land sem er, svo sem í jöklaferðir.

Ég er í hópi slíkra manna og persónulega finnst mér ekkert að því að ég borgi séstakt gjald fyrir að slíta malbikinu á leið upp til jökla. Og þá er ég kominn að þeirri hugsun að sá sem notar hlutinn eigi að borga fyrir það.

Stórir og þungir bílar slíta götunum meira en litlir og léttir og þyrla upp mun meira ryki. Þar að auki taka stórir bílar miklu meira pláss á malbikinu. Um Miklubrautina eina fara 100 þúsund bílar á dag og með því að helmingur bílanna yrði 2 metrum styttri myndu verða auðir 100 kílómetrar af malbiki á þessari einu götu á hverjum degi sem annars væru þaktir bílum.

Enn og aftur vil ég því velta upp hugmyndinni um sérstakt lengdargjald á bílum, - að við borgum fyrir það rými sem við tökum í umferðinni. Þetta hefur að hluta til verið gert í Japan og haft áhrif þar.

Ég vísa til fyrri blogga um útfærsluna á slíku gjaldi og heimilaðri notkun innsiglaðra vegalengdarmæla í bílum til þess að fá afslátt af lengdargjaldinu ef lítið er ekið.

Meginreglan getur verið: Sá sem mengar á að borga fyrir það. Sá sem notar á að borga fyrir not sín. Undantekning getur verið opinber þjónusta sem samfélagið allt nýtur góðs af, svo sem notkun almenningsfarartækja. Þess vegna ókeypis í strætó.

En þurfa strætóarnir allir að vera svona stórir? Mér verður starsýnt á stóra strætisvagna sem bruna um borgina, oft með sárafáa farþega, allt niður í einn.   


Bloggfærslur 6. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband