7.3.2007 | 10:55
KOSIÐ UM LOKUN ÁLVERSINS?
Nær daglega er sagt í blaðagreinum að 31. mars kjósi Hafnfirðingar um lokun álversins í Straumsvík eftir sjö ár. Þá muni 450 starfsmenn þess, ca helmingur þeirra búsettur í Hafnarfirði, - verða atvinnulausir og verða vá fyrir dyrum. Grímulaus hótunin er nú orðin aðalmálið, - ekki stækkunin.
Engum virðist detta í hug að stækkun þessa gjöfulasta álvers fyrirtækisins með allt að fjögurra milljarða króna gróða á ári muni skila viðbótararði til þess og að þess vegna sé það besta fjárfestingin fyrir Alcan að stækka það og nýta enn betur orkuverð sem skrapar botninn. Gleymd er líka sú umsögn Alcan á sínum tíma að álverið sé í stöðugri þróun.
Engum virðist detta í hug sá möguleiki að þetta ofurlága orkuverð geti laðað til sín nýjan fjárfesti ef álverið verður lagt niður, - að Bill Gates eða hliðstæðir fjármálarisar vilji fá orkuna keypta fyrir starfsemi sem mengar ekki og býður upp á mun hugljúfari byggð og betur launuð og fjölbreyttari störf en álverið.
Hugljúf er framtíðarsýn stóriðjusinnanna inn í 21. öldina: Álrisarnir hóta lokun nema þeir fái sínu framgengt. Þá getur Alcoa hótað að loka álverunum í Reyðarfirði og við Húsavík nema þau fáist stækkuð um samanlagt eitthvað um 500 þúsund tonn sem þurfa mun viðbótarorku sem nemur einni og hálfri Kárahnjúkavirkjun með núverandi virkjunartækni.
Húsvíkingar og Reyðfirðingar, sem eru tíu sinnum færri en Hafnfirðingar, verða svínbeygðir.
En hver er svo þessi "vá fyrir dyrum" í Hafnarfirði? Jú, 450 manns missa þá vinnuna. Af þeim mun helmingur búsettur í Hafnarfirði en á sama tíma fjölgar störfum í Hafnarfirði sjálfkrafa um 240 á hverju ári án þess að nokkur taki eftir því. Vegna þess að starsmennirnir eiga heima víðsvegar um höfuðborgarsvæðið væri réttara væri að tala um 1200 ný störf sem skapast sjálfkrafa á höfuðborgarsvæðinu árlega án þess að það veki eftirtekt.
Berum þessa "vá" saman við það þegar 300 manns misstu vinnuna þegar herinn fór. Í áratugi var búið að útlista það hve mörg fyrirtæki og margt fólk á Suðurnesjum hefði atvinnu af því að þjónusta varnarliðið á alla lund. Svo fór herinn allt í einu og það var vá fyrir dyrum.
Andri Snær Magnason lýsti því svo skemmtilega í viðtali við blað Framtíðarlandsins hvernig hann sá bæjarstjóra Reykjanesbæjar fyrir sér þar sem hann var að raða þessum 300 atvinnuleysingjum eins og tindátum inn í líkan af álveri í Helguvík.
En nokkrum vikum eftir að herinn fór voru tindátarnir týndir, - þessir 300 starfsmenn voru horfnir inn í atvinnulífið og næst verður "vá fyrir dyrum" að reyna að hafa upp á þeim til þess að geta raðað þeim inn í verksmiðjuna líkt og Stalín gerði í fimm ára áætlununum Sovétríkjanna sáluðu.
En höfum ekki áhyggjur af því að leita að starfsmönnum fyrir álver í Helguvík þegar þar að kemur. Við getum flutt inn Pólverja og notað starfsmannabúðir byggingarverktakanna í Helguvík fyrir þá.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (60)