8.3.2007 | 18:16
HJÁLP FYRIR FRAMSÓKN?
Það var alþekkt fyrirbæri á viðreisnarárunum að allmargir Sjálfstæðismenn kusu Alþýðuflokkinn í þingkosningum til þess að friða hann og halda honum við viðreisnarefnið. Þegar Eggert Þorsteinsson kaus útundan sér gegn stjórnarfrumvarpi á síðasta hluta tímabilsins og kom að margra mati í bakið í samstarfsflokknum var reynt að fyrirgefa það og taka það ekki of óstinnt upp.
Upphlaup Framsóknar nú vegna auðlindaákvæðisins rétt fyrir kosningar minnir svolítið á þetta. Allt í einu gerðu Framsóknarmenn þetta að stórmáli eftir að hafa látið sér fátt um finnast. Ég hef ekki haft neina sérstaka tilhneigingu til að vorkenna Sjálfstæðisflokknum en þarna hefði mér fundist drengilegra af Framsókn að hafa lengri og eðlilegri aðdraganda að þessari uppákomu.
En kannski hugsar Geir sem svo að það sé hið ágætasta mál að Framsókn kræki sér í einhver atkvæði fyrir þetta rétt eins og Alþýðuflokkurinn á sínum tíma í viðreisninni. Og kannski er þetta marklaust samkomulag samanber álit Sigurðar Líndals og kemur sér vel fyrir stóriðjustjórnina að upp komi mál sem hægt er að blása nógu mikið upp svo að umhverfismálin falli í skuggann.
Og nú heyri ég í útvarpinu að Geir segir að þetta sé "táknrænt" lagaákvæði, breyti í engu grundvelli atvinnuveganna og geri þeim kleyft að auka eignaheimildir sínar.
Formennirnir fóru óvenjulega leið í þessu máli, - afgreiddu það fyrst einhliða en leyfðu síðan stjórnarandstöðunni að sjá krógann tveimur tímum síðar og sýndu þeim óvenjulega litla virðingu miðað við það að venjulega liggur mikið samráðsferli að baki stjórnarskrárbreytingum. Sýnist ekki mikil von til að stjórnarandstaðan verði samstíga í þessu fyrir bragðið.
Eftir orðræðu þeirra Einars Odds Kristjánssonar og Össurar Skarphéðinssonar í Kastljósi í kvöld er ljóst að menn muni eyða næstu dögum í að karpa um það hvort auðlindaákvæðið breyti einhverju eða engu og ætti engum að koma á óvart þótt niðurstaðan yrði sú að hver geti túlkað þetta eftir sínu nefi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)