1.4.2007 | 23:40
HAUS HOGGINN AF - TVEIR SPRETTA UPP.
Baráttan við áldrekann er ævintýraleg. Ekki er fyrr búið að höggva af hausinn sem átti að spretta í Straumsvík en tveir aðrir spretta upp í ´fréttum daginn eftir, - í Helguvík og Þorlákshöfn þar sem gert er ráð fyrir alls 520 þúsund tonna framleiðslu í fyrsta áfanga!
Fréttin um áltæknigarðinn í Þorlákshöfn var athyglisverð. Hún fjallaði nær öll um tæknigarðinn sjálfan en síðan kom ein stutt setning svona eins og innan sviga um það að álverið ætti að framleiða 270 þúsund tonn. Auðvitað á eftir að koma síðar krafa um stækkun beggja þessara álvera upp í 500 þúsund tonn svo að þau verði arðbær og samkeppnishæf með alls milljón tonna framleiðslu sem þarf orku á við þrjár Kárahnjúkavirkjanir.
Þeir í Þorlákshöfn hafa þegar gefið upp að þeir stefni á virkjanasvæði á Torfajökulsvæðinu, Kerlingarfjöll, Langasjó, Markarfljót o. s.frv. Ekkert mál, þótt þarna eigi að rústa svæði milli Suðurjökla og Vatnajökuls sem tekur sjálfum Yellowstone-þjóðgarðinum fram. J
Já, Íslendingar skulu fórna náttúruverðmætum sínum svo að Bandaríkjamenn og Norðmenn geti lagt niður álverksmiðjur í sínum löndum og varðveitt sínar náttúrugersemar sem þó hafa ekki komist upp á listann yfir sjö undur veraldar eins og náttúra Íslands hefur komist.
Ég lít reyndar ekki á þetta sem ævintýri, nei fyrirgefið þið, ég get ekki tekið þetta öðruvísi en sem harmsögu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
1.4.2007 | 00:42
SIGUR Í ORRUSTU - STRÍÐIÐ HELDUR ÁFRAM
Dýrmætur sigur vannst í Hafnarfirði í baráttu Davíðs við Golíat og verður hann uppörvun fyrir þá sem standa í baráttunni um íslenska náttúru. Sigurinn ætti að kenna mönnum að hætta að tala niður til umhverfisverndarfólks og kalla það lopapeysulið, skemmtikrafta og lúsera. En þótt sigur hafi unnist í mikilvægri orrustu er stríðinu ekki lokið.
Núna er allt á fullu í undirbúningi álvera í Helguvík og Þorlákshöfn og Jónína Bjartmarz talaði í fréttum Stöðvar 2 í gær um "sátt" um álver við Húsavík sem fengi orku frá Þeystareykjum. Jónína gat þess ekki að álverið ætti líka í byrjun að fá orku frá nýjum borholum í Bjarnarflagi, Kröflu og jafnvel Gjástykki og ekki gat hún þess heldur að áform væru uppi um virkjun Skjálfandafljóts.
Fulltrúar allra álfyrirtækjanna sem hingað hafa sótt hafa sagt að lágmarksstærð álvera til framtíðar sé 500 þúsund tonn. Þess vegna vildi Alcan stækka álverið í Straumsvík. Þetta þýðir þegar álverin þrjú, sem nú er verið að undirbúa, hafa stækkað, eiga eftir að taka til sín nær allt það sem eftir stendur af virkjanakostum á Íslandi á meira en þrjátíu virkjanasvæðum með ómældum spjöllum á íslenskri náttúru.
Síðan má búast við að álverið í Reyðarfirði þurfi stækkunar við og þegar allt þetta verður að veruleika fara Kerlingarfjöll, Torfajökulsvæðið, Markarfljót, Langisjór, Hómsá, skagfirsku árnar og Jökulsá á Fjöllum fyrir lítið. Það verður lítið mál að aflétta friðun af síðastnefndu ánni rétt eins og Kringilsárrana fyrir Kárahnjúkavirkjun.
Lúðvík Geirsson gaf í viðtali við útvarpið í skyn að árið 2010 gæti stækkun álversins aftur orðið á dagskrá. Stríðið er því ekki búið þótt orrusta hafi unnist. Hún vannst með sameiginlegu átaki og ómetanlegur var skerfur landeigenda við Þjórsá á lokasprettinum.
Það leit ekki út fyrir það í ársbyrjun að byrlega blési fyrir andstöðu fyrir austan, - orð skáldsins "hnípin þjóð í vanda" leituðu á hugann á fyrsta undirbúningsfundinum. En eftir glæsilegan fund í Árnesi náðu menn vopnum sínum og allir þeir sem lögðu gríðarlega vinnu í þessa baráttu eiga þakkir skildar fyrir þennan tímamótaárangur sem gefur fordæmi fyrir baráttuna framundan.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)