2.4.2007 | 19:54
ÓLÍKU SAMAN AÐ JAFNA
Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld er greint frá því að andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar hafi sagt árið 2003 að hægt yrði að skapa fleiri störf fyrir austan án virkjunar en með, - en að tilraunir Vestfirðínga til þess að taka andstæðingana á orðinu hafi mistekist, - engin slík uppbygging hafi orðið þar á eina landshlutanum sem er og verður stóriðjulaus.
Hér er ólíku saman að jafna. Vestfirðir eru eini landshlutinn sem ekki hefur tryggar flugsamgöngur, - þangað er ófært til flugs miklu oftar en til Norður- og Austurlands vegna þröngra og misvindasamra aðflugsskilyrða og þó einkum þess að ekki er hægt að fljúga vestur í myrkri. Þetta er frágangssök fyrir ferðaþjónustu og aðra starfsem sem þarf á tryggum samgöngum að halda.
Það vegur þó líklega jafn þungt að samkeppnisaðstaða Vestfjarða er miklu erfiðari gagnvart öðrum löndum en samkeppnisstaða hins eldvirka svæðis íss og elds á miðhálendi Íslands sem á sér engan keppnaut í heiminum.
Þeir erlendir ferðamenn sem vilja sjá hrikalegt fjarðalandslag geta farið til vesturstrandar Noregs eða jafnvel til Grænlands þar sem slíkt landslag er enn fjölbreyttara og stærra í sniðum en á Íslandi.
Þegar við bætist að ríkisvaldið jós meira en hundrað milljörðum í framkvæmdir fyrir Austfirðinga á sama tíma og nær ekkert er gert fyrir Vestfirði er skýringin á hnignun byggðanna á Vestfjörðum augljós. Andstæðingar Kárahnúkavirkjunar höfðu engan stuðning til þess að framkvæma það sem fjármagn þurfti til ef jafnræðis átti að gæta.
Til þess að Vestfirðir geti keppt við eldvirka jöklasvæðið á Íslandi um ferðamenn verður að uppfylla þrenn höfuð skilyrði:
1. Koma á samkeppnisfærum samgöngum við Vestfirði. Íslandshreyfingin - lifandi land hefur sett fram hugmynd um flugbraut á Barðaströnd, sem hægt er að nota jafnt nótt sem dag, - með góðu jarðgangasambandi við Ísafjörð. Þetta yrði að líkindum mesta lyftistöng sem unnt er að gefa Vestfirðingum kost á til að ná sjálfsögðu jafnræði við aðra landshluta.
2. Veita fjármagni til uppbyggingar á Vestfjörðum til jafnræðis við aðra landshluta. Það er ósanngjarnt að segja að umhverfisverndarfólk hefði átt að koma vestur stuðningslaust með tvær hendur tómar til þess að framkvæma það sem sanngjarn stuðningur ríkisvaldsins hefði getað gert.
3. Að gera Vestfirði jafn einstæða á heimsvísu og samspil elds og íss í öðrum landshlutum er. Þetta er þrautin þyngri eins og áður hefur verið rakið. En engu að síður skulda landsmenn Vestfirðingum stuðning til þess að þeir standi jafnfætis öðrum landshlutum í samgöngum.
Hugsanlegt er að með skattaívilnunum til handa fyrirtækjum í jaðarbyggðum Íslands eins gert hefur verið í nágrannalöndunum s. s. í Svíþjóð sé hægt að laða vestur fyrirtæki á borð við hugbúnaðarfyrirtæki sem eru óháð staðsetningu. Íslandshreyfingin vill láta skoða þennan möguleika.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)