22.4.2007 | 23:04
AF HVERJU NÚNA?
Þessa dagana spyrja margir: Hvers vegna að leggja áherslu á 5 ára stöðvun stóriðjuframkvæmda núna fyrst framundan er hlé hvort eð er? Í Silfri Egils sagði Geir H. Haarde að ekkert nýtt álver risi næstu tvö ár og ástæðulaust að stöðva neitt. En tvö ár eru nánast augnablik þegar álverahraðlestin er annars vegar.
Auk þess liggja fyrir áætlanir um að fyrsti áfangi álvers á Keilisnesi rísi 2010 og það verður bara byrjunin því að fyrir liggur að álver verða ekki arðbær nema þau séu 500 þúsund tonn.
Vegna þessarar hagkvæmnisstærðar er athugað á vegum Alcan að ná markmiðinu um 460 þúsund tonna álver á Keilisnesi. Þessi tvö álver munu fullrisin þurfa orku frá svæðum utan Reykjanesskaga svo sem Torfajökulssvæðinu, Skaftárveitu eða Kerlingarfjöllum hvað sem líður síðustu mínútna frumvarpi Jónínu Bjartmarz á þingi sem auðvitað fékk ekki afgreiðslu.
Fyrir 2011 verða álver í Þorlákshöfn og á Bakka við Húsavík líklegast komin á flugstig með þeim fyrirsjáanlegum afleiðingum að alla virkjanlega orku landsins þurfi fyrir þau áður en yfir lýkur. Það er alveg morgunljóst að í kosningunum árið 2011 verður of seint að snúa við. Þá verður of seint að iðrast.
Eins og Presley söng: "It´s now or never", - nú eða aldrei. Þeir sem halda öðru fram eru annað hvort andvaralausir eða reyna að svæfa og slæva andófið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
22.4.2007 | 00:13
ÞYKJUSTULEIKUR Í UMHVERFISMÁLUM.
Þessa dagana eykst þykjustuleikur flokkanna sem hafa staðið fyrir og ætla að standa fyrir því stóriðju- og virkjanaæði sem ekki mun linna nema hægt verði að stöðva það í kosningunum og koma á 5 ára hléi á stóriðjuframkvæmdum í samræmi við vilja 58 prósent aðspurðra í nýlegri könnun.
Höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins lætur sér þetta vel líka og hlakkar yfir því að sérstaða Íslandshreyfingarinnar og VG hafi verið eytt með því að aðrir flokkar hafi tekið umhverfisáherslur inn í stefnuskrár sínar.
Í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins er talað um að ekki megi ganga of nærri náttúrunni við virkjanir. Það þýðir í raun að það megi ganga nærri náttúrunni. Síðan er verður það væntanlega túlkunaratriði ráðamanna hvernig eigi að skilgreina hvenær er gengið "of" nærri.
Sem sagt galopið enda standa enn ummæli forsætisráðherra um þá framtíðarsýn hans að hér á landi verði komin sex risaálver um 2020.
Ekki eru framsóknarmenn síðri í þessum feluleik. Í Morgunblaðinu í dag er grein eftir Jónínu Bjartmarz sem á að sanna að flokkur hennar ætli sér að friða flest þau virkjanasvæði sem mun þurfa að virkja á ef þessi álver Geirs rísa. Vitnar hún í frumvarp sem hún hafi lagt fram rétt fyrir þinglok og náðist auðvitað ekki að afgreiða.
Þetta er af svipuðum toga og auðlindaákvæðið fræga og ónýta sem þeir Geir og Jón lögðu fram rétt fyrir þingslit að ekki sé minnst á "þjóðarsáttarfrumvarp" Jóns sem átti ekki að komast til raunverulegra framkvæmda fyrr en 2010 þegar álverin hefðu verið komin á þann skrið að ekki yrði aftur snúið.
Á þeim stöðum þar sem álverin eiga að rísa vinna svo heimamenn úr þessum tveimur flokknum síðan á fullu við að koma þeim á koppinn og Framsókn auglýsir í rándýrum auglýsingum sínum hvað býr að baki: "Ekkert stopp".
Samfylkingin er þó skárri hvað snertir stefnuskrána Fagra Ísland en því miður er ekki víst að hægt sé að taka mark á henni meðan harðsnúnir hópar flokksmanna standa fyrir undirbúningi álversframkvæmda af fullum krafti. Ingibjörg Sólrún benti að vísu á það um daginn að ráðherra gæti synjað um virkjunarleyfi en spurningin er hvort það standist þegar á hólminn er komið eftir dýran og langan undirbúning virkjunar.
Fyrr í vetur hafði Ingibjörg að vísu sagt að ekki væri í raun hægt að stöðva virkjunarframkvæmdir eftir að gert hefði verið deiliskipulag.
Í Mogganum í dag lýsir Össur Skarphéðinsson mjög vel skaðlegum áhrifum stóriðjustefnunnar á síðasta kjörtímabili hafandi sjálfur ásamt lunganum af Samfylkingarþingmönnum samþykkt og staðið að þeim sömu stóriðjuframkvæmdum með því að samþykkja Kárahnjúkavirkjun, mestu umhverfsspjöll Íslandssögunnar!
Yfir þessu hlakka síðan þeir sem þykjast sjá fram á það að þessar blekkingar dugi til að villa kjósendum sýn. Það yrði sorglegt ef svo færi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)