5.4.2007 | 19:28
ÞAÐ SEM EKKI MÁ GERAST.
Skoðankönnun Capacent Gallup sýnir að stóriðjuflokkarnir þrír, Sjálfstæðis-, Framsóknar- og frjálslyndir fái um 52 prósent atkvæða í stað um 50 prósent sem þeir hafa haft til þessa. Þessu verður að breyta og þetta má ekki gerast í kosningunum. Íslandshreyfingin er að þessu sinni aðeins fyrir neðan þau mörk að ná inn 3 mönnum og fella núverandi stjórn.
En höfuðskilyrði til þess að koma í veg fyrir hreina stóriðjustjórn er auðvitað að koma samanlögðu fylgi stóriðjuflokkanna niður fyrir 50 prósent.
Raunar er mjög hæpið fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn að mynda stjórn með aðeins eins þingmanns meirihluta og því er hættan sem fyrr sú að frjálslyndum verði kippt um borð. Það má ekki gerast að mynduð verði hrein stóriðjustjórn á sama tíma og skoðanakönnunin sýnir að 60 prósent landsmanna, þar af hátt í helmingur kjósenda stjórnarflokkanna, vilja 5 ára stóriðjuhlé.
Nóg fylgi við Íslandshreyfinguna er forsenda þess að ná til þessa mikla fjölda umhverfisverndarfólks í stóriðjuflokkunum og minnka þannig stóriðjufylkinguna. Splunkuný skoðanakönnun í Norðausturkjördæmi og fyrri tvær kannanir á landsvísu sýna að þetta er mögulegt, því að í þeim öllum var Íslandshreyfingin inni með þrjá þingmenn.
Í fréttaskýringu Sjónvarpsins í kvöld kom fram að hægt er að koma þingmannatölu stjórnarinnar niður í 30 ef Íslandshreyfingin kemur að mönnum. Samfylkingin og VG geta ekki hoggið nóg inn í raðir stóriðjuflokkanna, til þess þarf flokk sem er hægra megin á miðjunni. Og þar er Íslandshreyfingin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (39)