FRÁBÆR X-FACTOR ÚRSLIT

Þessi fallegi helgidagur endar vel með X-factor úrslitum sem fóru vel fram úr þeim vonum sem ég hafði bundið við þessa keppni. þetta er að vísu bloggað áður en endanleg úrslit eru kunn en ég er ekki í vafa um að bæði Hara og Jógvan eru komin til að vera hver sem úrslitin verða.

Ég hafði lengi efasemdir um að þessi þáttur yrði að því sem hann er orðinn en úrslitaþátturinn í kvöld feykti þeim efasemdum í burtu. Þátturinn hefur farið síbatnandi með vaxandi áhorfi. Bæði X-factor og söngvakeppni Sjónvarpsins eru lyftistengur fyrir íslenskt tónlistarlíf og sjónvarpsstöðvunum til sóma.

Og nú, klukkustund síðar, liggur fyrir að Jógvan hefur tekið þetta með trompi og það hefur ekki verið meiri færeysk söngvarastemning á Íslandi síðan Íslendingar féllu fyrir laginu Rasmus árið 1958.   


HVERNIG NÆST ÞJÓÐARVILJINN FRAM?

Ný skoðanakönnun Capacent Gallup sýnir að 58 prósent þjóðarinnar vill stóriðjustopp næstu 5 árin og að ótrúlega stór hluti Sjálfstæðismanna (38 %), Framsóknarmanna (34 %) og Frjálslyndra er andvígur frekari stóriðju. Þessi könnun og síðustu kannanir sýna líka að þegar Íslandshreyfingin breikkar grænu fylkinguna og kemur mönnum inn fellur stjórnin og einnig möguleikinn á að núverandi stjórnarflokkar kippi frjálslyndum upp í hreina stóriðjustjórn.

Það verður alltaf stór hluti andstæðinga stóriðjunnar í Sjálfstæðisflokknum sem hikar við að kjósa vinstri flokkana þegar í kjörklefann er komið og mun auðveldara verður fyrir þá að kjósa Íslandshreyfinguna sem liggur hægra megin í miðju hægra/vinstra litrófsins með áherslu á umhverfi, einstaklingsfrelsi, nýsköpun og bætta velferð.

Umhverfismálin eru eina mál þessara kosninga sem varðar þá hagsmuni óborinna kynslóða að við ómetanleg verðmæti náttúru landsins fyrir þær og mannkyn allt. Þess vegna er svo brýnt að þjóðarviljinn komi fram.  


Bloggfærslur 6. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband