1. MAÍ, HLÝR OG LJÚFUR

Það var svolítið skrýtin tilfinning að taka þátt í göngu og hátíðahöldum dagsins eftir að hafa, starfs síns vegna, ekki getað gert það í tæpa hálfa öld. Ég var nefnilega aðeins átján ára þegar ég ákvað að vegna starfs míns sem óhlutdrægur skemmtikraftur gæti ég ekki tekið þátt í aðgerðum af þessum toga. Síðar færðist þetta yfir á fréttamannsstarfið.

Það var gaman að eiga 49 ára gamlan svartan en hátíðlegan örbíl til að fara í miðborgina og undirstrika kröfu umhverfisaldar um sparneytni ásamt kröfum um bættan hag launþega. Aka á tímabili á leiðinni niður eftir samhliða Sniglunum.

 Eftir rölt í á kosningaskrifstofu Íslandshreyfingarinnar í Kirkjuhvoli og í Kolaportið var vel við eigandi að fara að Smáralind með bílinn því 583 cc vélin í honum var upphaflega NSU Max vél í vélhjól, afar hátæknileg vél á sínum tíma með yfirliggjandi kambás og heimsmeistaratitla í vélhjólaakappakstri.

Hann átti því heima innan um vélhjólin enda eigandinn Snigill nr. 200 vegna eignarhalds á sínum tíma á flygildinu Skaftinu sem er með 503 cc Rotax vél. Steini Tótu notaði á sínum tíma heitið "Taufaxi" um slík eins manns 120 kílóa flygildi.

Í lokin lá leiðin í kosningaskrifstofu Íslandshreyfingarinnar í Hafnarfirði og síðan aftur niður í miðborg á þessum fyrsta "frjálsa" 1. maí í lífi mínu.

Krafan um breytta umhverfisstefnu, "betri leið til að blómstra, " snertir í raun mjög launþega þessa lands því að óbreytt æðandi stóriðjuhraðlest mun verða alltof dýru verði keypt fyrir alla Íslendinga ef ekki verður staldarð við og haldið inn á brautarstöð til að ná áttum.


SLÆMUR BISNESS.

Er það ekki grátlegt að flokkurinn, sem hefur haldið á lofti lögmálum frelsis og markaðlögmála skuli ganga fremst fram í því að nota ríkisstyrkt handafl til stórkarlalegra verksmiðjulausna með taprekstursævintýrið Kárahnjúkavirkjun sem flaggskip? Stefnir síðan að því að selja alla virkjanlega orku á spottprís til mengandi álvera svo að ekkert verði afgangs handa þekkingariðnaði eða vetnisvæðingu sem gætu vafalaust borgað hærra orkuverð án mengunar.

Enn óskynsamlegra er það að fórna mesta verðmætinu, íslenskri náttúru, fyrir þetta án þess að nokkuð sé gert til að kanna virði hennar heldur gengið út frá því að hún sé einskis virði. Það sem bar fyrir augu á hinu einstæða svæði sem á engan sinn líka í heiminum og nú er að sökkva undir Hálslón, - þetta var ekki metið á krónu.

Á sama tíma er útsýni úr íbúð í háhýsi við Sæbraut metið á allt að 15 milljónum króna meira virði en útsýni úr nákvæmlega eins íbúð í Túnunum. Og þó er Esjan, fjallið sem horft er á, ekkert merkilegra en tugþúsundir fjalla um allan heim.

Ég hef lengi reynt að benda á það hve nauðsynlegt það væri að setja kraft í djúpboranir sem gætu gjörbylt öllu orkuumhverfi á Íslandi og að það væri óskynsamlegt að vaða áfram í virkjanaæðinu, heldur bíða og sjá hvort hægt verði að ná sama árangri með margfalt minni umhverfisröskun.

Einnig að reyna að laða fjárfesta til þess að setja kraft í þessar djúpboranir og fylgja því svo eftir til annarra landa. Nú hefur það gerst að þýskt orkufyrirtæki hefur áhuga á því að fjárfesta í djúpborunum hér á landi og fylgja því eftir með því að flytja raforku um sæstreng til Evrópu.

Þegar litið er til þess að hugbúnaðarfyrirtæki vilja koma til landsins og kaupa raforku til mengunarlausrar starfsemi með mun betri og fleiri störfum á orkueiningu hlýtur það að teljast slæmur bisness að halda áfram álveraóðagotinu.

Bendi á www. islandshreyfing.is


Bloggfærslur 1. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband