10.5.2007 | 13:40
BARNAUPPFRÆÐSLA GUÐLAUGS ÞÓRS.
Lengi getur vont versnað. Fyrir nokkrum dögum bloggaði ég um þá ótrúlegu sögufölsun sem birtist á áróðursspjaldi Sjálfstæðisflokksins þar sem því er blákalt haldið fram að flokkurinn hafi haft forystu um og barist fyrir náttúruvernd hér á landi. Ekki þarf annað en að kynna sér baráttu náttúruverndarfólks undanfarin ár til að sjá að þetta er algert öfugmæli, - ævinlega þegar deilur hafa staðið um virkjanir hefur flokkurinn staðið með virkjunum en á móti náttúruvernd.
Dæmi: Fljótsdalsvirkjun, Eyjabakkar, Kárahnjúkavirkjun, Langisjór, Norðlingaölduveita, Ölkelduháls, Kerlingarfjöll, Skjálfandafljót o. s. frv.
Ég var að vona að það væru PR-spunadoktorar flokksins sem hefðu gert þetta spjald en í gærkvöldi kom í ljós að þetta kemur úr innsta hring. Bláeygur drengur spurði Guðlaug Þór Þórðarson í Kastljósi um afstöðu Sjálfstæðisflokksins til náttúrunnar og Guðlaugur endurtók hina ótrúlegu sögufölsun án þess að depla auga.
Það er sök sér að gauka ósannindum að fullorðnu fólki sem sér í gegnum þau. Verra er að gera það gagnvart saklausum börnum. Ég vona að barnabörn mín eigi ekki eftir að njóta uppfræðslu af þessu tagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)